Utanríkisráðuneytið hefur hafnað beiðni Vélfags ehf. um framlengingu á tímabundinni undanþágu frá efnahagsþvingunaraðgerðum. Vélfag hefur hingað til getað starfað á slíkum undanþágum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu Vélfags . Þar segir að ákvörðun um málið hafi verið tekin án þess að nein gögn eða rök hafi verið lögð fram og að Vélfag hafi ekki fengið lögmæta málsmeðferð. Þar segir einnig að ráðuneytið vísi til fyrri grunsemda um tengsl félagsins við Norebo JSC sem urðu til þess að Arion banki frysti fjármuni fyrirtækisins í júlí. „Vélfag hefur fylgt öllum skilyrðum ráðuneytisins, starfað með fullu gagnsæi undir eftirliti Arion banka og skilað reglulegum mánaðarskýrslum,“ segir í tilkynningu Vélfags „Þrátt fyrir það hefur ráðuneytið nú ákveðið að fella niður allar undanþágur án fyrirvara og þannig þvinga íslenskt hátæknifyrirtæki í gjaldþrot vegna samnings sem ráðuneytið sjálft hafði áður samþykkt. Þetta er brot á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.“ Vélfag, sem þróar og framleiðir vélar til fiskvinnslu, er eina íslenska fyrirtækið sem viðskiptaþvinganir ESB gegn Rússum ná yfir. Það var áður í eigu rússneska útgerðarfélagsins Norebo. Eigandi þess, Vitaly Orlov, er einn helsti útgerðarmaður Rússlands. Forsvarsmenn Vélfags hafa ítrekað sagt að engin tengsl séu lengur við Norebo. Beðið eftir dómi Beðið er eftir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem mál Vélfags gegn íslenska ríkinu var rekið í síðustu viku. Í tilkynningu sinni sakar Vélfag Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra um að reyna að koma fyrirtækinu í þrot áður en dómur verður kveðinn upp í máli fyrirtækisins. Þá hafa stjórnendur Vélfags einnig kvartað til Eftirlitsstofnunar EFTA undan viðskiptaþvingunum sem lagðar hafa verið á fyrirtækið. Telja enn tengsl við Orlov-feðga Íslenska ríkið telur að núverandi eigandi Vélfags Ivan Nicoilai Kaufmann sé enn tengdur feðgunum Nikita og Vitaly Orlov. Því hefur honum verið bannað að setjast í stjórn fyrirtækisins þrátt fyrir að eiga í því meirihluta. Um það var einnig fjallað í héraðsdómi.