Bríet vakti athygli fyrir lagið Feimin árið 2018 og sló í gegn 2021 með plötunni Kveðja, Bríet sem rakaði inn Íslensku tónlistarverðlaununum. Platan var valin plata ársins og Bríet var söngvari og textahöfundur ársins. Bríet – Act I er fyrsti hluti þríleiks sem hún hefur verið með í smíðum síðustu ár. Platan kom út 7. nóvember en smáskífan Cowboy Killer var það fyrsta sem heyrðist af henni. Bríet syngur að þessu sinni á ensku sem er tákn um að vilja ná út fyrir landsteinana. Hún sækir sér innblástur í americana- og kántrítónlist. Platan er unnin að hluta til í Nashville og síðan á Íslandi með Magnúsi Jóhann Ragnarssyni. Það voru þeir Young Nazareth og Þormóður Eiríksson sem framleiddu. Atli Már Steinarsson ræddi við Bríeti um ferilinn og nýjustu plötuna: Bríet – Act I.