Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir yfirlýsingar dómsmálaráðherra um afsögn ríkislögreglustjóra ekki standast. Það sé ekki þannig að embættismenn sem segi af sér geti ákveðið að vera á launum út skipunartímann. Guðlaugur Þór fór fram á það við ráðherra að útskýra á hvaða lagagrundvelli sú ákvörðun að flytja Sigríði Björk Guðjónsdóttur yfir í dómsmálaráðuneytið eftir að hún sagði af sér sem ríkislögreglustjóri var tekin. Telur hann það skjóta skökku við að ef embættismaður segi af sér þá eigi hann rétt á launum út skipunartímann. „Það er ekki þannig ef embættismenn, sama hverjir það eru ákveði það, og þeir oft ráðnir til margra ára, að þeir segi af sér og segi: Ég ætlaði hins vegar að vera áfram á launum út skipunartíma minn. Það er bara ekki þannig. Þannig að það liggur alveg fyrir að yfirlýsingar ráðherra í þessu máli, þær standast ekki.“ Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, benti á að Sigríður Björk hafi átt fjögur ár eftir af skipunartíma sínum. Hún hafi sagt af sér en ekki beðist lausnar og á því sé reginmunur. Ráðstöfunin hafi verið gerð á grundvelli laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Að hennar mati er það mun betri nýting á skattfé að nýta starfskrafta Sigríðar í ráðuneytinu í stað þess að gera starfslokasamning sem hefði þýtt að ríkið hefði þurft að greiða henni fjögurra ára laun fyrir að sitja heima. „Þetta mál er allt unnið á grundvelli laga og mér finnst óþægilegt að skynja það hversu lítt að sér þingmaðurinn er,“ sagði Þorbjörg Sigríður og spurði þingmanninn á móti hvernig hann hefði viljað leysa málið.