Vilja krefja hjúkrunarfræðinga um meistaragráðu

Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands hefur samþykkt nýja námsskrá sem felur í sér 3 ára nám til B.S.-prófs og tveggja ára nám til meistaragráðu. Deildin leggur til að meistaragráða verði skilyrði fyrir starfsleyfi. Þetta er gert í samstarfi við hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þetta staðfestir Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, kennslustjóri Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar Háskóla Íslands. Í dag er B.S.-nám í hjúkrunarfræði hér á landi fjögur ár og fá hjúkrunarfræðingar starfsleyfi að því loknu. „En þetta mál er statt enn þá innan háskólans og við erum í samtali við meðal annars heilbrigðisráðuneytið og líka ráðuneyti háskóla um útfærslu á þessu. Því þarna erum við í rauninni þá að tala um breytingu um reglugerð starfsleyfa hjúkrunarfræðinga um að þess sé krafist meistaragráðu.“ Tími til kominn Þórdís segir málið almennt hafa hlotið góðan hljómgrunn innan hjúkrunarfræðistéttarinnar enda þurfi nemendur í dag að ná yfir allt of margt á of skömmum tíma. Kennsla þurfi til dæmis að byrja fyrr hjá deildinni en hjá öðrum á haustin. „Mörgum finnst bara tími til kominn. Við höfum verið eftirbátur annarra greina og fagstétta sem við vinnum með eins og félagsráðgjafa, sjúkraþjálfa, næringarfræðinga, lyfjafræðinga o.s.frv. og hjúkrunarfræðingar finna alveg fyrir því að vera ekki með sama menntunarstig og þessar samstarfsstéttir.“ Hún telur breytinguna ekki til þess fallna að fæla fólk frá stéttinni heldur muni hún þvert á móti efla hjúkrunarfræðinga og sporna við brottfalli úr starfi. „Ungt fólk í dag, ef það er að velja sér nám og hefur val um fjögurra ára B.S. nám í hjúkrun en getur farið í fimm ára nám í einhverju öðru og þá fengið meistaragráðu. Ég held að það séu margir sem velja það að fá meistaragráðu.“ Dreifir betur úr álagi Aðspurð segir hún ekki standa til að fjölga stundum í starfsnámi á heilbrigðisstofnunum með breytingunni. „Nei, við gerum kröfu um að það séu 2300 klínískar stundir í náminu og þetta nám er bara að reyna að dreifa betur úr þeim þannig að það sé minna álag á nemendum.“ Spurð hvort áformin snúist að einhverju leyti um fjármagn segir Þórdís að deildin sé vissulega ekki að fá nóg fjármagn til reksturs, snúist áformin fyrst og fremst um að efla nám hjúkrunarfræðinga. Tekjumódel háskólans er þannig að deildir fá meira greitt fyrir hvern útskrifaðan meistaranema. „Við erum að hugsa um bara að hjúkrunarfræðingar séu með góða menntun sem skilar sér til þeirra sem þiggja hjúkrun sem eru náttúrulega bara allir landsmenn (...) og að við fáum lengri tíma til að kenna það sem þarf að kenna.“