Ný húsaleigulög voru samþykkt á Alþingi í dag. Í tilkynningu frá félags- og húsnæðismálaráðuneytinu segir að þau auki húsnæðisöryggi í langtímaleigu og gefi fyrirsjáanleika um breytingar á leigufjárhæð. Meðal annars er óheimilt að semja um að leigufjárhæð í tímabundnum samningum taki breytingum á fyrstu 12 mánuðum samningsins, skylda til að skrá leigusamninga í leiguskrá HMS nær til allra sem leigja út húsnæði til íbúðar og leigusamningar verða ekki undanþegnir upplýsingarétti. Stjórnarandstaðan er gagnrýnin og segir nýju lögin auka skrifræði, draga úr framboði á leiguhúsnæði og á endanum hækka leiguverð sem sé þvert á tilgang laganna. Inga Sæland segir lögin auka réttarvernd og húsnæðisöryggi leigjenda.RÚV / Ragnar Visage