Fyrirtækið Vélfag hefur ekki sýnt samstarfsvilja að mati Utanríkisráðuneytisins. Ráðuneytið hafnaði í dag að framlengja undanþágur fyrirtækisins frá efnahagsþvingunum ESB sem beinast að fyrirtækjum sem tengjast Rússlandi. Vélfag, sem var áður í eigu rússneska útgerðarfélagsins Norebo, hefur hingað til getað starfað á slíkri undanþágu, en fyrirtækið er það fyrsta og eina sem viðskiptaþvinganirnar ná yfir. Samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins byggir ákvörðun þess á því að fyrirtækið hafi ekki skilað Arion banka gögnum sem staðfest gætu að sala á fyrirtækinu frá Norebo hafi verið raunveruleg og sönn. Vélfag sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í dag þar sem það gagnrýndi ákvörðun ráðuneytisins harðlega. Fullnægjandi gögnum ekki verið skilað Þann 8. júlí frysti Arion banki fjármuni Vélfags. Sama dag var tilkynnt um breytingu á endanlegum eiganda Vélfags. Hann væri ekki lengur hinn rússneski Nikita Orlov heldur Ivan Nicolai Kaufmann, 48 ára kaupsýslumaður frá Lichtenstein búsettur í Sviss. Í framhaldi af þessu hafnaði utanríkisráðuneytið Kaufmann stjórnarsetu í félaginu þrátt fyrir að hann væri meirihlutaeigandi. Talið var að Kaufmann tengdist enn Nikita Orlov og föður hans Vitaly Orlov, sem er einn stærsti útgerðarmaður Rússlands. Ráðuneytið veitti þó Vélfagi undanþágur til þess að stunda viðskipti að því gefnu að fyrirtækið uppfyllti öruggisráðstafanir þess sem miðuðu að því að tryggja svokallaðan eldvegg milli fyrirtækisins og aðila á þvingunarlista ESB. Þannig hefur fyrirtækið getað starfað hingað til. Til viðbótar við það að Vélfag hafi ekki skilað inn gögnum til Arion telur ráðuneytið Vélfag ekki hafa sýnt samstarfsvilja í málinu og hafi fyrirtækið þvert á móti gert ítrekaðar tilraunir til að grafa undan tilgangi öryggisráðstöfunarinnar (eldvegg) ráðuneytisins. Mögulega enn tengsl við Norebo Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins segir að rökstuðningur Arion banka fyrir fyrstingunni væri grunur um að félagið Norebo JSC, sem fært var á lista Evrópusambandsins yfir lögaðila sem sæta þvingunaraðgerðum á grundvelli framangreindar reglugerðar 20. maí 2025, væri raunverulegur eigandi Vélfags. Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir af hálfu bankans til Vélfags hafi ekki borist nægar skýringar eða gögn sem sýni að grunur bankans sé ekki á rökum reistur. Því hafi Arion banki ekki enn affryst eignir Vélfags. Beðið eftir dómi Beðið er eftir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem mál Vélfags gegn íslenska ríkinu var rekið í síðustu viku. Í tilkynningu sinni sakar Vélfag Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra um að reyna að koma fyrirtækinu í þrot áður en dómur verður kveðinn upp í máli fyrirtækisins.