Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, hefur samþykkt að farið verði í leiðtogaprófkjör í Reykjavík þann 24. janúar næstkomandi. Stillt verði upp á önnur sæti framboðslistans. „Þetta er leið sem hefur reynst Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík ágætlega í gegnum tíðina og er komin nokkur hefð fyrir að fara í,“ segir Albert Guðmundsson formaður Varðar. Hann segir stjórn Varðar hafa metið þessa leið besta fyrir þá stöðu sem flokkurinn væri í og að hún myndi fá útbreiddan stuðning meðal flokksmanna. Það reyndist rétt þar sem 82,1% af nær þrjú hundruð viðstöddum kusu með tillögunni. Sjálfstæðisflokkurinn mældist stærstur í borginni samkvæmt könnun Gallup í október. Hann mældist þar með 31,1% fylgi og myndi fá 9 borgarfulltrúa ef það yrði niðurstaða kosninganna. Albert segir mikla tilhlökkun fyrir komandi kosningum þann 16. maí. „Það er ánægjulegt hvað flokkurinn er að mælast vel,“ segir hann. „Við hlökkum til komandi verkefna í vetur og erum til í að taka slaginn í borgarstjórnarkosningum í vor.“