Hótar BBC lögsókn upp á milljarð dollara

Bandaríska sjónvarpsstöðin Fox News greinir frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi hótað að lögsækja BBC fyrir einn milljarð bandaríkjadala, jafnvirði tæplega hundrað og þrjátíu milljarða króna, bæti fjölmiðillinn ekki ráð sitt fyrir föstudag. Hann krefst þess að Panorama dragi heimildarmyndina til baka að fullu ellegar verði fjölmiðillinn lögsóttur. Fox news vitnar í bréf sem var sent BBC þar sem miðillinn er sakaður um að hafa birt „rangar, ærumeiðandi, niðrandi og fjandsamlegar fullyrðingar“. Í fréttaskýringaþættinum var myndband af ræðu Trumps fyrir árásina á þinghúsið 2021 klippt þannig að hann virtist hvetja stuðningsmenn sína til að annars vegar marsera að þinghúsinu og hins vegar að berjast sér við hlið. Í reynd sagði hann þetta tvennt með 50 mínútna millibili. Samir Shah, stjórnarformaður BBC, sendi í dag bréf til menningar, fjölmiðla- og íþróttanefndar breska þingsins þar sem hann baðst afsökunar á vinnubrögðum teymisins sem vann heimildarmyndina og hvernig ræða Trumps var klippt saman. Hann segir fjölmiðilinn hafi verið í samskiptum við Trump og aðstoðarfólk hans og að hann íhugi hvernig eigi að svara forsetanum. Ingibjörg Þórðardóttir fyrrverandi ritstjóri hjá Breska ríkisútvarpinu segist ekki trúuð á að þar sé kerfislæg hlutdrægni en hjá fréttastofu sem birti jafnvel mörg hundruð fréttir á hverjum degi verði mistök. Hún bendir á að þar sé tillhneiging til að bregðast seint við hlutunum og þögnin geti gert hlutina verri. „Það sem BBC hefur yfirleitt gert illa, því miður, er að bregðast við þegar svona krísur koma upp. Þau sýna það enn og aftur að viðbrögðin við krísunum eru léleg og þar af leiðandi verða þær verri,“ sagði Ingibjörg. Rætt var við hana í fréttaskýringaþættinum Spegillinn í kvöld. Bandaríkjaforseti hefur hótað lögsókn upp á milljarð bandaríkjadala gegn breska ríkisútvarpinu vegna villandi myndskeiðs af ræðu hans í fréttaskýringaþættinum Panorama í október í fyrra. Stjórnarformaður BBC hefur beðist afsökunar á vinnubrögðunum.