Fellaskóli sigraði Skrekk 2025

Mikil stemning var í Borgarleikhúsinu í kvöld þegar yfir tvö hundruð nemendur úr átta skólum stigu á svið í Skrekk 2025, hæfileikakeppni grunnskóla í Reykjavík. Á endanum var það Fellaskóli sem bar sigur úr býtum með atriðið Þrýstingsbylgja Í öðru sæti var Árbæjarskóli með atriðið 5:00 og í því þriðja var Langholtsskóli með atriðið Meira en nóg. Skrekkstunguna hlaut einnig Fellaskóli. Skrekkstungan er sérstök verðlaun fyrir atriði sem þykir skara fram úr í skapandi notkun íslensku. Markmiðið með verðlaununum er að styðja við jákvæð viðhorf til íslensku og draga fram möguleika tungumálsins í skapandi starfi. Kynnar kvöldsins voru þau Salka Gústafsdóttir og Bjarni Kristbjörnsson. Í dómnefnd kvöldsins sátu: Styrmir Steinn Sigmundsson, fulltrúi ungmennaráðs Samfés. Andrean Sigurgeirsson, Dansari og danshöfundur hjá íslenska dansflokknum. Elísabet Indra Ragnarsdóttur, verkefnastjóri dagskrárgerðar í Hörpu. Mikael Emil Kaaber, leikari hjá Borgarleikhúsinu. Kristinn Óli S. Haraldsson, leikari og tónlistarmaður og fulltrúi Þjóðleikhússins. Tónlistarmaðurinn Herra Hnetusmjör steig einnig á svið og flutti Skrekkslag ársins en að þessu sinni var það lag hans Elli Egils.