Sex drepnir í loftárás Bandaríkjahers á Kyrrahafi

Sex manns fórust í loftárás Bandaríkjahers á tvo báta á alþjóðlegu hafsvæði á Kyrrahafi á sunnudaginn. Pete Hegseth varnarmálaráðherra tilkynnti þetta á mánudag og sagði bátana hafa verið að smygla fíkniefnum. Hegseth sagði í tilkynningu sinni að báðir bátarnir hefðu verið undir stjórn hópa sem Bandaríkin hafa skilgreint sem hryðjuverkasamtök en tók ekki fram hvaða hópa hann ætti við. „Undir forystu Trumps forseta erum við að vernda heimalandið og drepa þessa gengjahryðjuverkamenn sem vilja skaða landið okkar og þjóðina,“ sagði Hegseth. Að þessum sex meðtöldum hafa alls 76 verið drepnir í árásum Bandaríkjahers á báta meintra eiturlyfjasmyglara, aðallega á Karíbahafi. Allar árásirnar hafa verið gerðar á alþjóðlegu hafsvæði utan lögsögu Bandaríkjanna og Bandaríkin hafa ekki birt sérstök sönnunargögn fyrir því að um eiturlyfjasmyglbáta sé að ræða. Bandaríkjastjórn segist eiga í vopnuðum átökum við eiturlyfjahringi frá Rómönsku Ameríku og að þar með séu árásirnar réttlættanlegar með vísan til þjóðaröryggis. Ríkisstjórnir og fjölskyldur margra þeirra sem hafa verið drepnir í árásunum hafna því að þeir hafi verið meðlimir í eiturlyfjagengjum. Fulltrúar Bandaríkjastjórnar hafa viðurkennt í yfirheyrslum fyrir þingi að þeir viti ekki alltaf hver sé um borð í hverjum báti fyrir sig, heldur séu árásirnar gerðar vegna vísbendinga um að báturinn tengist glæpasamtökum. Volker Türk, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, gagnrýndi árásir Bandaríkjanna á báta á alþjóðlegu hafsvæði í síðasta mánuði. Eftir árásina á sunnudaginn sagði hann að aðgerðir af þessu tagi ættu að teljast löggæsluaðgerðir, þar sem aðeins ætti að grípa til banvæns vopnavalds sem síðasta úrræðis. „Ég hef hvatt Bandaríkjastjórn til að hefja rannsókn, fyrst og fremst, því þeir verða að spyrja sig: Eru árásirnar brot á alþjóðlegum mannréttindalögum? Eru þær aftökur án dóms og laga? Það eru sterkar vísbendingar um að svo sé, en þeir þurfa að ganga úr skugga um það.“