Eftirlitsstofnun Úkraínu gegn spillingu (NABU) gerði húsleitir á mánudaginn í byggingum sem tengjast Tymúr Míndítsj, nánum bandamanni og fyrrum viðskiptafélaga Volodymyrs Zelenskyj Úkraínuforseta. Míndítsj er meðeigandi kvikmyndafélagsins Kvartal 95, sem Zelenskyj tók þátt í að stofna. Úkraínski fréttamiðillinn Kyiv Independent hafði eftir heimildarmönnum sínum innan lögreglunnar að Míndítsj hefði látið sig hverfa áður en húsleitirnar voru gerðar. Míndítsj er sagður hafa hagnast mjög á sambandi sínu við Úkraínuforseta undanfarin ár. NABU hefur kunngert að húsleitirnar tengist rannsókn á spillingu í úkraínska orkugeiranum. Stofnunin hefur gefið út að glæpasamtök hafi lagt á ráðin um að ná stjórn yfir mikilvægum úkraínskum ríkisstofnunum, meðal annars ríkisrekna kjarnorkufélaginu Energoatom. Samkvæmt NABU hafði hópurinn tekið við mútugreiðslum frá verktökum Energoatom sem námu um 10-15% af heildarvirði hvers samnings. Stofnunin hefur birt hljóðupptökur af tveimur mönnum sem sagðir eru vera Íhor Myronjúk, ráðgjafi þáverandi orkumálaráðherra, og Dmytro Basov, fyrrum formaður öryggisdeildar Energoatom, að ræða leiðir til að setja þrýsting á verktakana. Volodymyr Zelenskyj tjáði sig stuttlega um rannsóknina í ávarpi á samfélagsmiðlinum Telegram og sagði nauðsynlegt að viðurlögum væri beitt gegn spillingu, án þess þó að nefna Míndítsj eða aðra hinna grunuðu á nafn. „Allra skilvirkra aðgerða gegn spillingu er sérlega þörf,“ sagði Zelenskyj í ávarpinu. „Óumflýjanleiki refsingarinnar er nauðsynlegur.“ Zelenskyj gerði tilraun til að svipta NABU sjálfstæði sínu í júlí en dró í land eftir fjöldamótmæli. Kyiv Independent hefur eftir heimildarmönnum sínum í lögreglunni að rannsóknin gegn Míndítsj hafi verið einn hvati ríkisstjórnarinnar fyrir því að reyna að vængstífa eftirlitsstofnunina. Heimildarmenn Kyiv Independent segja leitir einnig hafa verið gerðar hjá núverandi dómsmálaráðherra Úkraínu, Herman Halúsjtsjenko, sem var orkumálaráðherra frá 2021 til 2025.