Hæstirétturinn neitar að endurskoða ákvörðun um hjónabönd samkynhneigðra

Hæstiréttur Bandaríkjanna neitaði í gær að taka til meðferðar mál sem hefði getað leitt til endurskoðunar á tímamótadómi réttarins frá árinu 2015, Obergefell gegn Hodges, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að réttur samkynhneigðra til hjónabands væri tryggður af bandarísku stjórnarskránni. Kim Davis, fyrrverandi starfsmaður hjá sýslumannsembættinu í Rowan-sýslu í Kentucky, hafði farið fram á endurskoðun á dómi gegn sér sem féll eftir hæstaréttardóminn 2015. Davis var þá dæmd í sex daga fangelsi fyrir að neita að gefa út hjúskaparvottorð fyrir samkynja hjón, þrátt fyrir niðurstöðu Hæstaréttar. Davis vísaði á sínum tíma til þess að hún gæti ekki gefið út slík vottorð vegna trúarlegrar sannfæringar sinnar og vísaði til trúfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar fyrir rétti. Hæstirétturinn gaf ekki sérstaka skýringu fyrir ákvörðun sinni um að taka málið ekki til meðferðar. Ákvörðunar réttarins hafði verið beðið með nokkurri eftirvæntingu, einkum þar sem skipun hans nú er mun íhaldssamari en hún var fyrir tíu árum. Dómarar sem aðhyllast íhaldssama túlkun á stjórnarskránni eru nú sex á móti þremur í dómstólnum. Árið 2022 hnekkti dómstóllinn nærri fimmtíu ára gömlu fordæmi sínu úr máli Roe gegn Wade, sem hafði skilgreint rétt kvenna til þungunarrofs sem stjórnarskrárvarin réttindi. Í dómsorði sínu í því máli hafði Clarence Thomas hæstaréttardómari hvatt opinskátt til þess að niðurstaða Hæstaréttar í máli Obergefell gegn Hodges yrði einnig endurskoðuð. Andstæðingar hjónabands samkynhneigðra í Bandaríkjunum höfðu því bundið nokkrar vonir við að hæstiréttur myndi nú nota tækifærið til að hnekkja dómnum frá 2015. „Í dag vann ástin aftur,“ sagði Kelley Robinson, forseti hinsegin samtakanna Human Rights Campaign. „Þegar embættismenn hins opinbera sverja þess eið að þjóna samfélagi sínu nær eiðurinn til allra – líka hinsegin fólks. Hæstirétturinn kom því á hreint í dag að því fylgja afleiðingar að neita að virða stjórnarskrárvarin réttindi annarra.“