Stuðningur við evruna aldrei meiri á evrusvæðinu

Stuðningur við evruna hefur aldrei verið meiri en nú meðal aðildarríkja Evrópusambandsins. Þetta var niðurstaða skoðanakönnunarinnar Eurobaromètre , sem gerð er tvisvar á ári fyrir framkvæmdastjórn ESB. Í könnuninni sögðust 83% aðspurðra styðja evruna sem gjaldmiðil sinn en 14% voru á móti henni. Stuðningur við evruna hefur að mestu aukist jafnt og þétt í könnununum frá því að hún var innleidd árið 2002, að undanskildum árum evrópsku skuldakreppunnar. Þegar fyrst var spurt um afstöðu til evrunnar í könnuninni árið 2002 sögðust 65% vera hlynnt henni en 25% á móti. Mesta stuðningsaukningin við evruna var á Spáni, í Portúgal og á Kýpur, þar sem stuðningurinn jókst um meira en 20%. Fjögur ríki skáru sig nokkuð úr í könnuninni. Í Frakklandi mældist stuðningur við evruna í kringum 70% í ár og stendur því nánast í stað milli ára. Svipaður stuðningur mældist í Austurríki og á Ítalíu og var breytingin þar líka lítil. Á Ítalíu dróst stuðningurinn nokkuð saman á öðrum áratugi þessarar aldar vegna evrukreppunnar en mælist nú svipaður og fyrir hana. Króatía er það ríki evrusvæðisins þar sem stuðningur við evruna er minnstur, eða rétt undir 60%. Króatar tóku upp evruna í byrjun ársins 2023 og aðstæður þar eru því frábrugðnar flestum hinum ríkjunum.