„Þegar ég skráði mig í sagnfræði þá hélt ég að sagnfræðingar væru eins og dyraverðir á skemmtistað,“ segir Sif Sigmarsdóttir rithöfundur og blaðakona. Hún gaf nýlega út skáldsöguna Allt sem við hefðum getað orðið sem byggist að nokkru á ævi Annie Leifs, fyrstu eiginkonu tónskáldsins Jóns Leifs. Annie lagði allt í sölurnar svo að fremsta tónskáld Íslendinga mætti blómstra en komst hins vegar að því að maður uppsker ekki alltaf eins og maður sáir. Aðalpersónur sögunnar eru þrjár konur, hver af sinni kynslóð, sem horfast í augu við eigið val og drauma í lífinu. Melkorka Ólafsdóttir ræddi við Sif í Víðsjá á Rás 1. Klipptu konurnar sig sjálfar út úr sögunni? „Aðdragandinn að þessari bók er afskaplega langur,“ segir Sif sem minnist þess að hafa setið á Þjóðarbókhlöðunni um síðustu aldamót í rannsóknarvinnu fyrir lokaritgerð í sagnfræði um Jón Leifs tónskáld. „Ég kom auga á þessa konu sem var alltaf að sniglast þarna í bakgrunninum. Ég varð svo hrifin af þessari konu, hún var allt í öllu. Þetta var fyrsta eiginkona Jóns og ég hugsaði að þessi kona þyrfti sína eigin ævisögu og ég ætlaði að taka það að mér að skrifa hana. En það reyndist flóknara.“ Hún segist hafa haldið að sagnfræðingar ákveðu hverjir kæmust á spjöld sögunnar og hverjir ekki. „Það reyndist ekki svo. Ég ætlaði að bjarga öllum konum frá gleymsku en ég komst að því að heimildirnar eru ofsalega mikil fyrirstaða þegar kemur að kvennasögu.“ „Það er ástæðan fyrir því að konur þurrkast dálítið út. Saga Anniear og Jóns sýnir hvernig konur hverfa úr sögunni. Hann er þetta mikla tónskáld og á heimili þeirra ríkir mikill varðveislukúltur. Þau passa upp á allar heimildir um Jón; bréf sem hann fær, bréf sem hann sendir, dagbækurnar hans og blaðaumfjallanir. En Annie var líka listamaður,“ segir hún. Annie hafi verið hæfileikaríkur píanóleikari. „En þegar kemur að Annie er öllu hent í ruslið.“ Til sé ein heimild sem sýni vel hvernig þetta gerist. Hjónin höfðu varðveitt blaðaúrklippu um tónleika sem haldnir voru í Þýskalandi þar sem verk Jóns voru flutt og Annie spilaði á píanóið. „Það er búið að klippa þessa blaðagrein niður og öllu er haldið sem er sagt um verk Jóns. En það sem er sagt um píanóleik Annier, því er hreinlega hent.“ Sif hafi nýlega farið að velta fyrir sér hver það var sem hélt á skærunum og er hrædd um að það hafi verið Annie sjálf en ekki Jón. „Því hún var sérlegur ráðgjafi og hálfgerður ritari Jóns. Klipptu konurnar sig sjálfar út úr sögunni?“ Sif Sigmarsdóttir veltir fyrir sér hvort konur hafi klippt sig sjálfar út úr sögunni í skáldsögu sinni Allt sem við hefðum getað orðið. Sem ungur sagnfræðingur ætlaði hún sér að bjarga öllum gleymdu konunum en vandinn reyndist stærri en hana grunaði. Einnig var rætt við Sif í Kiljunni á RÚV. Hver kynslóð þarf að endurskrifa söguna Önnur aðalpersóna í bókinni er skjalavörðurinn Hildur sem tekur áhugaverða afstöðu til sögunnar. Henni þykir réttlætanlegt að endursegja söguna til að rétta hlut kvenna. Sif segir að alltaf þurfi að endurskrifa söguna. „Sumir, kannski dálítið gamaldags, sagnfræðingar eru mikið á móti því,“ segir Sif og nefnir styttubyltinguna svokölluðu þegar styttur voru felldar eftir að farið var að horfa til þess hvað viðkomandi hafi gert, mögulega verið þrælahaldari eða framið stríðsglæpi. „Mörgum fannst þetta óviðeigandi og að það væri ljótt að endurskrifa söguna.“ „En við erum í rauninni ekkert að endurskrifa söguna, við erum bara að horfa á hana frá öðru sjónarhorni. Ég held að hver kynslóð, hver tími, líti söguna nýjum augum. Þess vegna verða sagnfræðingar kannski aldrei atvinnulausir því hver kynslóð þarf að skrifa sína sögu.“ Biður um fyrirgefningu í staðinn Sif segist hafa fengið áhuga á ósýnilegum hlutverkum kvenna eftir að hún uppgötvaði Annie Leifs. „Þá fór ég að líta dálítið í kringum mig og sá þessar týndu konur sögunnar. Þær voru mjög víða.“ Hún býr í Bretlandi þar sem skáldskapurinn er mikið notaður til að endurvekja þessar konur þegar heimildirnar eru ekki til staðar. Þetta séu vinsælar bækur. Á Íslandi sé þetta aðeins viðkvæmara og Sif hefur verið spurð hvort hún megi skrifa um fólk sem hafi verið til í alvörunni. „Það kom á mig fát þegar ég heyrði þessa spurningu fyrst. Mér hafði ekki dottið í hug að ég þyrfti að biðja um leyfi. Þannig ég kannski bara bið um fyrirgefningu í staðinn.“ Þarf hreinilega að fórna konu og börnum fyrir listina Í sögunni er einnig verðlaunahöfundurinn Sigríður Ugla, skálduð persóna, sem á það sameiginlegt með Jóni Leifs að þau lifa öfgafullu listamannslífi sem krefst mikilla fórna sem að þeim standa. Sif þykir einmitt skemmtilegt að skoða skuggahliðar listarinnar. „Það er nefnilega oft sagt að listamaður færir miklar fórnir fyrir listina en mér sýnist það aðallega vera aðstandendurnir sem færa stærstu fórnirnar, það eru makar og börn. Í tilfelli Jóns Leifs þá er það fjölskyldan hans á Íslandi – hann býr í Þýskalandi en foreldrar hans og tengdaforeldrar þurfa að halda honum hálfpartinn uppi. Þau eru alltaf að hvetja hann til að fá sér „alvöru vinnu“.“ „Hann er með þessa miklu köllun og hann lítur svo á að hann þurfi hreinlega að fórna konu og börnum til þess að heimurinn megi njóta þessara miklu verka sem hann er að segja.“ Fórnaði ekki börnunum sínum fyrir þessa skáldssögu Sagan vekur einnig upp spurningar hvort það sé hreinlega hægt að vera framamanneskja og móðir á sama tíma. Þessar hugmyndir skoðar Sif í gegnum Sigríði Uglu og fléttar inn femínískum hugleiðingum hvort konur þurfi að hætta að vera mæður eða vinkonur til að sinna listinni. „Það er talað um barnavagninn á ganginum. Þegar kemur að kvenkyns listamönnum, þá er þessi barnavagn ákveðin hindrun þegar kemur að því að konur geti skapað listir. Þetta er alltaf einhver jafnvægislist. Til þess að verða mjög stór þarftu að færa miklar fórnir. Mér sýnist stærstu listamennirnir hafa fært miklar fórnir.“ „Það eru femínískar pælingar sem koma þarna inn en svo held ég að þetta sé nú oft bara sjálfselska hjá listamanninum sem ákveður að sveiflast alla leið og hreinlega fórna öllu.“ Sif nefnir hve sorglegt það er að hugsa til barna sem þrá athygli foreldra sinna en fá ekki en horfa svo upp á samfélagið dýrka foreldrið og list þeirra. „Ég á nú þrjú börn. Það tók mig tíu ár að skrifa þessa bók þannig ég vil meina að ég hafi ekki verið hræðileg móðir á meðan ég var að skrifa hana. En líklega verðurðu að spyrja börnin mín,“ bætir Sif við og hlær. Baráttan töpuð þegar konur fara sjálfar að klippa Mikið sé fjallað um bakslag í réttindabaráttu kvenna og Sif segist sjá það skýrt. „Auðvitað vonum við að það sé einfaldlega tímabundið en það sem ég kannski óttast mest, ef við tölum um blaðagreinina sem var klippt niður – hvort þeirra klippti greinina? Var það Annie eða Jón?“ „Ég held að þessi barátta sé fyrst töpuð þegar við förum sjálfar að klippa.“ Sif Sigmarsdóttir veltir fyrir sér hvort konur hafi klippt sig sjálfar út úr sögunni í skáldsögu sinni Allt sem við hefðum getað orðið. Sem ungur sagnfræðingur ætlaði hún sér að bjarga öllum gleymdu konunum en vandinn reyndist stærri en hana grunaði. Rætt var við Sif Sigmarsdóttur í Víðsjá á Rás 1. Viðtalið má finna í spilaranum hér fyrir ofan.