Öldungadeildin samþykkir fjárheimildir til að koma ríkinu af stað

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gærkvöld fjárveitingar svo hægt væri að hefja fulla starfsemi ríkisstofnana á ný eftir 41 dags lokanir. Fulltrúadeild þingsins á þó eftir að greiða atkvæði um fjárveitingarnar. Ekki er talið að það verði gert fyrr en á morgun í fyrsta lagi. Átta þingmenn Demókrata tóku höndum saman við Repúblikana um að samþykkja fjárveitingarnar. Þar með viku þeir af stefnu flokks síns sem vildi ekki samþykkja frumvarp Repúblikana fyrr en tryggt yrði áframhald á niðurgreiðslu vegna sjúkratrygginga sem eiga að renna út í árslok. John Thune, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, ræðir við fréttamenn eftir atkvæðagreiðsluna.EPA / ANNABELLE GORDON