Í það minnsta átta fórust og sautján særðust þegar bíll sprakk í Nýju Delhí í gærkvöld. Yfirvöld hafa ekkert fullyrt um orsök sprengingarinnar en grunur leikur á að sprengju hafi verið komið fyrir í bílunum. Bíllinn var á gatnamótum þegar sprengingin varð. Hún olli skemmdum á nálægum bílum og minni farartækjum. Eldur kviknaði í sex bílum. Kennsl hafa verið borin á sex af átta líkum. Indverska fréttaþjónustan Press Trust of India segir að tólf hafi farist í sprengingunni og eldinum sem kviknaði. Það hefur ekki verið staðfest af yfirvöldum. Sprengingin varð nærri Rauða virkinu, sögufrægum stað og einu þekktasta kennimerki Indlands. Rajnat Singh, varnarmálaráðherra Indlands, sagði að helstu rannsóknarstofnanir landsins væru að kanna atvikið og lofaði því að upplýst yrði um það sem fyrst. Hann fullyrti að þeir sem bæru ábyrgð á harmleiknum yrðu látnir svara til saka og sagði að þeim yrði ekki undir nokkrum kringumstæðum þyrmt.