David Szalay hlýtur Booker-verðlaunin í ár fyrir sjöttu skáldsögu sína, Flesh. Þar fylgja lesendur István frá unglingsárunum í ungversku íbúðahverfi til vistunar í uppeldisheimili, þaðan í herþjónustu í Írak og síðar í starf sem lífvörður hinna ofurríku í London. Formaður dómnefndarinnar, Roddy Doyle, sem hlaut verðlaunin árið 1993, segir bókina einstaka og ólíka nokkurri annarri bók sem þau hafi lesið. Aðalpersónan, István, er að mörgu leyti dæmigerður karlmaður; líkamlegur, hvatvís og varla í nokkurri tengingu við eigin tilfinningar – og stóran hluta bókarinnar er hann varla í tengingu yfirhöfuð. Hann hlýtur að teljast til fámálustu persóna bókmenntanna, að mati dómnefndarinnar. Samt sem áður verður þessi bók, sem byggir á knappri og agaðri setningagerð, að seiðandi, spennandi og hrífandi frásögn sem spyr hvað það sé sem geri lífið þess virði að lifa. Szalay er fyrsti ungversk-breski rithöfundurinn til að hljóta Booker-verðlaunin. Hann fæddist í Kanada en ólst upp í London og hefur búið í Líbanon, Ungverjalandi og nú í Vínarborg í Austurríki. Flesh er sjötta skáldsaga Szalay og hafa verk hans verið þýdd yfir á rúmlega 20 tungumál og aðlöguð fyrir silfurskjáinn. Hann er margverðlaunaður höfundur og komst meðal annars á stuttlista Booker-verðlaunanna árið 2016 fyrir bókina All That Man Is. Szalay er þó ekki eini höfundurinn af ungverskum uppruna sem hlýtur verðlaunin því László Krasznahorkai, sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels í ár, hlaut alþjóðlegu Booker-verðlaunin árið 2015. Verðlaunin eru veitt framúrskarandi bókmenntum sem gefnar hafa verið út í Bretlandi eða á Írlandi en árið 2014 var bandarískum útgáfumarkaði hleypt að líka. Sú skáldsaga sem hreppir hnossið fær 50.000 pund í verðlaunafé en hver tilnefndur höfundur hlýtur 2.500 pund. Á meðal tilnefndra í ár voru bæði fyrrum verðlaunahafi og þrír höfundar sem aldrei hafa komist á stuttlistann áður. Höfundarnir hafa rætur að rekja til fjögurra þjóðerna og þriggja heimsálfa. Dómnefndina í ár skipa Booker-verðlaunahafinn frá 1993, Roddy Doyle, formaður nefndarinnar; Ayọ̀bámi Adébáyọ̀ sem tilnefnd var á langlista Booker-verðlaunanna 2023; leikkonan og útgefandinn Sarah Jessica Parker; höfundurinn og dagskrárgerðarmaðurinn Chris Power; og metsöluhöfundurinn Kiley Reid sem einnig hefur verið tilnefnd á langlista Booker-verðlaunanna. Verðlaununum er jafnframt ætlað að beina sjónum að rithöfundum sem eru lítt eða ekki þekktir meðal almennings. Salman Rushdie og Margaret Atwood eru á meðal þeirra sem hlotið hafa Man Booker-verðlaunin.