Náttúrustofa Austurlands hefur fylgst með gróðurfari á Reyðarfirði á fimm ára fresti síðustu tuttugu ár. Það er hluti af umhverfisvöktun sem var sett á laggirnar þegar Alcoa Fjarðaál hóf þar rekstur. 150 rannsóknarreitir víða um fjörð eru heimsóttir á fimm ára fresti og skráð skilmerkilega hvaða gróður finnst í hverjum reit. Kristín Ágústsdóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Austurlands, rekur engar umfangsmiklar breytingar til mengunarinnar. Hins vegar hafi mikill sprengivöxtur lúpínu orðið á tímabilinu, svo mikill að það gengur erfiðlega að leita uppi rannsóknarreitina undir lúpínunni. „Menn voru duglegir að rækta landið og allir af vilja gerðir og af góðum hug settu út lúpínufræ á sínum tíma, en þar er núna bara fjólublátt haf á sumrin.” Landinn slóst í för í gróðurfarsrannsóknir.