Syni Gaddafis sleppt úr fangelsi

Hannibal Gaddafi getur um frjálst höfuð strokið í fyrsta sinn í áratug. Honum var í gær sleppt úr fangelsi. Þar mátti hann dúsa í tíu ár án þess að réttað væri yfir honum. Stjórnvöld í Líbanon töldu að Gaddafi byggi yfir upplýsingum um hvarf þriggja manna í Líbanon 1978. Þeir voru líbanskur klerkur, Mussa Sadr, að nafni og samferðamenn hans sem hurfu í Líbíu. Grunur vaknaði um að Muammar Gaddafi, einræðisherra í Líbíu og faðir Hannibals, hefði staðið á bak við hvarf þeirra. Hannibal var tveggja ára. Líbönsk yfirvöld handtóku Gaddafi yngri fyrir áratug og kröfðust þess að hann upplýsti um hvarf mannanna. Hann hafði flúið til Sýrlands eftir fall stjórnar föður síns. Þar var honum rænt og fluttur til Líbanons. Dómari fyrirskipaði í síðasta mánuði að Hannibal Gaddafi gæti fengið lausn úr fangelsi gegn 11 milljóna dollara tryggingafé. Sú upphæð var lækkuð í 900 þúsund dollara í síðustu viku. Tryggingaféð var greitt í gær og Gaddafi yngri sleppt úr fangelsi. Lögmaður hans sagði leið hans nú liggja úr landi. Hannibal Gaddafi er ekki eini maðurinn sem slapp úr fangelsi í gær vegna mála sem tengjast einræðisherranum fyrrverandi. Fyrir tilviljun var Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta einnig sleppt úr fangelsi í gær. Hann var byrjaður að afplána fimm ára fangelsisdóm fyrir að þiggja fjárframlög í kosningasjóði af Gaddafi. Dóminum var áfrýjað og fær hann lausn þar til dómur verður kveðinn upp.