Gervigreind gott verkfæri en kemur ekki í stað lækna

Gervigreind getur verið gott verkfæri en eins og með önnur verkfæri er ekki hægt að treysta á þau eingöngu. Mikilvægt er að leita sér aðstoðar og fá álit lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks líka, að sögn formanns Félags íslenskra heimilislækna. Ekki hægt að treysta eingöngu á gervigreind Dæmi eru um það að fólk noti gervigreindarforrit til að greina ýmis heilsufarsvandamál þegar heilbrigðiskerfinu hefur ekki tekist það. Fólk getur þurft að bíða, jafnvel í lengri tíma, eftir að fá tíma hjá lækni. Það leitar jafnvel á náðir gervigreindar. Gunnar Þór Geirsson, formaður Félags íslenskra heimilislækna, segir gervigreind geta verið gott verkfæri. „En eins og með önnur verkfæri er ekki hægt að treysta á þau eingöngu, það er mikilvægt að leita sér aðstoðar og álits hjá læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki.“ Hann segist sjálfur nota gervigreind í sínum störfum sem læknir. Hún sé góð í að taka saman upplýsingar. „Og til að leita að upplýsingum á netinu þá er þetta gott tæki og þetta flýtir fyrir og maður er alltaf að berjast við tímann í mínu starfi sem læknir. Tíminn er allt í einu búinn í lok dags og maður á eftir að gera ýmsa marga hluti þannig að þetta flýtir fyrir og það er mjög jákvætt.“ Læknar eyða of miklum tíma í pappírsvinnu Hluti af vandamálinu er að læknar eyða of miklum tíma í pappírsvinnu. „Ég held að það sem er nauðsynlegt að gera að það sé samtal og samráð við heimilislækna. Það hefur einhvern veginn verið þannig orðræðan stundum að manni virðist vera að Pétur og Páll geti bara dempt verkefnum á heimilislækna og þeir hafa ekki haft neitt að segja um það.“ Gunnar Þór segir mikilvægt að heimilislæknar hafi eitthvað að segja um hvaða verkefni þeir fara í. „Mörg af þessum verkefnum hafa orðið til þess að tíminn okkar í móttöku hefur minnkað. Fólk hefur kannski ekki fengið lausn eða jafnvel ekki tíma hjá sínum heimilislækni. Þá leitar það eitthvað annað.“ Hann segir alls ekki neikvætt að fólk leiti sér upplýsinga um sína heilsu og fræðist um heilbrigðan lífstíl. „Og jafnvel síðan ræða það við sinn lækni. Ef við förum aftur í gervigreindina þá er hún ekki alltaf neikvæð.“ Mikilvægt sé að fólk ræði við heilbrigðisstarfsfólk. „Það er mikilvægt að nota þetta í sameiningu. Þetta er nýtt verkfæri og við notum það. Fólk er að nota gervigreindina til að fá betri upplýsingar og það er ekkert óeðlilegt að nota hana til að fá betri upplýsingar um heilsufarsvandamál eins og eitthvað annað.“