Fimm ára fangelsi fyrir að skera mann á háls

Norbert Walicki var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps og dæmdur til fimm ára fangelsisvistar. Hann reyndi að skera mann á háls á gistiheimili í Reykjavík í júní 2023. Dómurinn yfir honum var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 30. október. Norbert viðurkenndi að hafa skorið annan mann á háls en neitaði sök. Hann sagðist hafa gert þetta í sjálfsvörn eftir að hafa lent í deilum við aðra menn. Dómari hafnaði rökum hans og sagði ákvæði um sjálfsvörn ekki eiga við. Norbert kvaðst hafa verið hræddur eftir að hafa verið kýldur og því sótt hnífa á herbergi sitt. Það hefði hann þó aðeins gert til að vera öruggari og til að hræða aðra. Norbert réðist á mann í reykherbergi gistiheimilis og sögðu þolandi og vitni að árásin hefði verið fyrirvaralaus. Þeir læstu hann inni og kölluðu eftir aðstoð. Þolandinn hélt um háls sér þegar lögregla kom á vettvang og var sendur á sjúkrahús til aðhlynningar. Dómari sagði hafið yfir skynsamlegan vafa að Norbert hefði ætlað að skera manninn á háls. Dómari sagði að ekki væri annað séð en að hann hefði ætlað sér að drepa manninn. Ástand hans mætti að einhverju leyti skýra með því að hann væri undir áhrifum áfengis en það leysti hann ekki undan refsiábyrgð.