Stuttu eftir gott gengi logar Demókrataflokkurinn í illdeilum

Eftir glimrandi árangur í nýliðnum kosningum logar allt í deilum innan Demókrataflokksins. Átta öldungadeildarþingmenn eru sakaðir um að svíkja félaga sína með því að gera samkomulag við Repúblikana um að binda endi á vinnustöðvun alríkis Bandaríkjanna, sem kallað er government shutdown þar vestra. Til þess að knýja fram samkomulag þurfti atkvæði átta Demókrata með tillögu Repúblikana. Í staðinn fengu Demókratar í gegn, að kosið verður um það í desember hvort áframhald verði á niðurgreiðslum í heilbrigðisþjónustu. Og sitt sýnist hverjum. Demókrötum – hvort sem er úr öldungadeildinni, fulltrúadeildinni eða annars staðar úr stjórnkerfinu – þykir mörgum svik að átta þingmenn úr þeirra röðum hafi ákveðið að þar með fengi flokkurinn nóg fyrir sinn snúð. „Samningur sem ekki lækkar heilbrigðiskostnað er svik við milljónir Bandaríkjamanna sem reiða sig á Demókrata til að berjast fyrir þá,“ er haft eftir Greg Casar frá Texas í New York Times. Hann fer fyrir þingmannahópi Demókrata í fulltrúadeildinni sem eru sérstaklega frjálslyndir. En þeir Demókratar sem kusu með tillögu Repúblikana í öldungadeildinni segja að þeir hafi greitt atkvæði af raunsæi, þótt það hafi ef til vill verið pólitískt óvinsælt. Markmiðið hafi verið að eyða óvissu milljóna Bandaríkjamanna sem ríkt hafi vegna 40 daga vinnustöðvunar alríkisstarfsmanna. Dick Durbin frá Illinois er einn þeirra sem gerðust liðhlaupi. „Margir vinir mínir eru óánægðir,“ segir hann. „Þeir telja að við hefðum átt að halda alríkinu lokuðu um óákveðinn tíma til að berjast gegn stefnu Trump-stjórnarinnar.“ En hann, sem ekki ætlar að bjóða sig fram að nýju á næsta kjörtímabili, rétt eins og hinir sjö Demókratarnir sem kusu með tillögu Repúblikana, segist ekki hafa getað „samþykkt áætlun sem kemur á pólitísku stríði, sem bitnar helst á launatékka nágrannans eða getu hans til að geta fætt börn sín.“ Þar vitnar Durbin til þess að vinnustöðvunin gerði milljónir Bandaríkjamanna launalausa í 40 daga og kom í veg fyrir mataraðstoð til milljóna fátækra íbúa. Í New York Times segir ennfremur að þessi átök séu nýjasta birtingarmynd þess að Demókrataflokkurinn sé mjög klofinn um hvaða stefnu skuli taka til þess að standa uppi í hárinu á Donald Trump og Repúblikönum á þinginu sem hafa í grið og erg beitt þingstyrk sínum til að kæfa niður mál Demókrata. Chuck Schumer, leiðtogi minnihlutans í öldungadeildinni, hefur sætt einna mestri gagnrýni þrátt fyrir að hafa ekki verið einn þeirra sem kusu með tillögu Repúblikana. Hann er sakaður um að geta ekki haldið flokknum nægilega samheldnum. Nokkrir þingmenn vilja að hann segi af sér.