Staða lántakenda á fasteignamarkaði þrengri en áður

Staða lántakenda á fasteignamarkaði er þrengri en áður, þrátt fyrir að stóru viðskiptabankarnir hafi allir kynnt breytingar á fasteignalánum eftir vaxtadóminn svokallaða, að mati formanns Félags fasteignasala. Seðlabankinn þurfi að skýra betur heimild til að veita lán umfram reglur um greiðslubyrði. Jákvætt að bankarnir hafi eytt mestu óvissunni Arion banki kynnti í gær ný fasteignalán eftir niðurstöðu Hæstaréttar í vaxtamálinu svokallaða. Þar með hafa stóru viðskiptabankarnir þrír allir kynnt breytingar eða nýjungar í lánakjörum. „Það er allavega jákvætt að allir viðskiptabankarnir þrír hafi stigið fram og eytt að mestu óvissunni sem fylgdi vaxtadómnum,“ segir Monika Hjálmtýsdóttir, formaður Félags fasteignasala. Fasteignasalar séu ekki farnir að finna fyrir breytingum á fasteignamarkaðnum enn, enda stutt síðan þær voru kynntar. „En eins og þetta blasir við okkur núna að með þessu nýja lánaframboði sem bankarnir hafa nú kynnt, þá er staða lántakenda á fasteignamarkaði þrengri en áður. Hámarkslánstíminn er núna 30 ár í stað 40 ára áður og fyrir flesta er það þó 20 til 25 ár.“ Það þýðir að erfiðara er að komast í gegnum greiðslumat en áður, þar sem greiðslubyrðin hefur hækkað með styttri lánstíma. „Seðlabankinn rýmkaði líka lánshlutfall fyrstu kaupenda úr 85 í 90 prósent og á sama tíma jók hann undanþáguheimild frá hámarki greiðslubyrgðar í hlutfalli við tekjur, úr 5 prósentum í leyfilegri undanþágu í 10 prósent.“ Fyrstu kaupendur geta því fengið allt að 90 prósenta lán fyrir kaup á fasteign. Monika telur Seðlabankann þurfa að skýra betur þessa undanþágu. „Seðlabankinn þarf að skýra út fyrir hverja er þessi undanþága. Og af hverju, ef þessi undanþága er til staðar og það er sérstaklega kynnt að undanþáguheimildin sé rýmkuð, af hverju er ekki bara frekar hlutfallið í heild rýmkað í stað þess að vera með óskýrar undanþáguheimildir sem bankarnir til dæmis virðast ekki vera að notast við.“ Hjálpar ekki að rýmka lánshlutfall ef fólk kemst ekki í gegnum greiðslumat Það hjálpi ekki mikið að rýmka lánshlutfallið úr 85 prósentum í 90 prósent ef það er enn mjög erfitt að komast í gegnum greiðslumat. „Það til dæmis eitt og sér er ekki að hjálpa en þetta er auðvitað Seðlabankinn að gera. Bankarnir eru að stytta lánstímann og svo eru vextirnir líka hærri á þessum föstu verðtryggðu vöxtum heldur en voru áður. Af hverju þetta er svona er erfitt fyrir mig að segja en svona blasir þetta við okkur.“ Monika segir að Seðlabankinn verði að lækka stýrivexti. „Og á meðan, að minnsta kosti ástandið er svona, þá þarf að rýmka greiðslubyrðarhlutfallið og frekar reyna að byggja á sértækum undanþágum.“ Aðgerðir Seðlabankans hjálpi ekki ef fólk stendur frammi fyrir því að standast ekki greiðslumat. „Það er svona kjarni málsins.“