Óttast að 14 milljarðar falli á sveitarfélögin

Greining Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu gerir ráð fyrir allt að 14 milljarða króna viðbótarkostnaður falli á sveitarfélögin vegna lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ekkert kostnaðarmat hefur farið fram. Frumvarp um lögfestingu samningsins var afgreitt úr velferðarnefnd í gær og fer þriðja og síðasta umræða um hann fram á Alþingi í dag. Heitar umræður urðu á þingi í gær vegna afgreiðslu nefndarinnar. Stjórnarandstaðan hefur ítrekað kallað eftir að unnið verði kostnaðarmat til að meta áhrif á sveitarfélögin. Félagsmálaráðherra og aðrir þingmenn meirihlutans eru hins vegar á því að málið hafi verið ítarlega unnið í nefnd. Í 129. grein sveitarstjórnarstjórnarlaga segir að ef fyrirsjáanlegt er að tillaga að stjórnarfrumvarpi hafi fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög skuli fara fram sérstakt mat á áhrifum þeirra á fjárhag sveitarfélaga. Í greinargerð frumvarpsins er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að frumvarpið hafi áhrif á fjárhag sveitarfélaga enda feli lögfesting samnings ekki í sér ný efnisréttindi. Nú þegar halli í málaflokknum Sveitarfélögin eru efins um að sú verði raunin. „Samkvæmt þessum greiningum sem við höfum verið að vinna getur það verið allt að 14 milljarðar króna sem er áætlaður viðbótarkostnaður. Þetta tengist búsetuþjónustu og NPA samningum fyrst og fremst. Það er nú þegar halli gagnvart sveitarfélögunum á málaflokknum. Þess vegna er mjög mikilvægt að þetta kostnaðarmat fari fram,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri SSH. 70 prósent af þjónustu við fatlað fólk fellur á sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Hann tekur skýrt fram að sveitarfélögin leggist ekki gegn lögfestingu samningsins. Þvert á móti styðji þau lögfestingu hans enda sé það metnaður sveitarfélaganna að sinna málaflokknum eins og best verður á kosið. „Við erum fyrst og fremst að líta á þetta mál faglega. Það gilda lög í landinu varðandi frumvörp, samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber að fara mat á hlutum sem þessu og það er það sem við erum að kalla á.“