Víkin: Of þunnt og endurtekningarsamt til að halda uppi spennu

Kolbeinn Rastrick skrifar: Víkin er nýjasta kvikmynd Braga Þórs Hinrikssonar sem gerði áður til dæmis Víti í Vestmannaeyjum og Algjör Sveppi-myndirnar. Víkin er ofbeldisfullur spennutryllir og því alls ekki barnvænt grín eins og Bragi er þekktastur fyrir. Myndin fjallar um eldri hjón, Björn og Áslaugu, sem fara í afskekktan sumarbústað sinn á Hornströndum. Ekki líður þó á löngu þar til bandarískur maður að nafni Jack bankar upp á. Undir því yfirskini að hann sé týndur ferðalangur kemst hann inn í bústaðinn þar sem hann ræðst á hjónin og tekur þau í gíslingu. Jack segist vera sonur Björns, móðir hans sé bandarísk. Nú þegar hann er loksins búinn að finna pabba sinn er kominn tími til þess að þeir kynnist almennilega. Jack er greinilega ofbeldishneigður og ekki með öllum mjalla svo að Björn og Áslaug eru síður en svo spennt fyrir þessum óvæntu fjölskyldufundum. Spurningin er því hvort þau komast lífs af úr þessum aðstæðum. Kolbeinn Rastrick, kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar á Rás 1, rýnir í nýjustu mynd Braga Þórs Hinrikssonar, Víkina. „Á meðan það glittir í gamanhryllingsmynd er Víkin staðráðin í því að vera alvarleg.“ Það er strax augljóst af plakati myndarinnar að þetta er enginn Algjör Sveppi. Hendur munda haglabyssu sem miðað er að Birni og Áslaugu. Það er bein vísun í plakat myndarinnar Deliverance frá 1972 í leikstjórn Johns Boormans. Stórt þema þeirrar myndar er ógnin sem býr í einangruðum óbyggðum. Eins minnir upphaf Víkurinnar á áströlsku myndina Long Weekend frá 1978 í leikstjórn Colins Egglestons. Þar fer par, sem er greinilega í óhamingjusömu sambandi, saman í ferðalag út í óbyggðir Ástralíu. Einangruð og fjarri mannabyggðum sætir parið stanslausum árásum því þau eru óvelkomnir gestir í náttúrunni. Bústaðarferð hjónanna í Víkinni hefst á því að refur ræðst á Áslaugu þegar þau eru að opna dyrnar á bústaðnum. Myndin gengur því inn í ákveðna greinarhefð og hugmyndin um einangruðu hjónin og boðflennuna lofar góðum trylli. Því miður er það nær það eina sem myndin hefur fram að færa. Þegar Jack hefur tekið hjónin í gíslingu tekur við þunn og endurtekningasöm söguflétta. Í fyrsta lagi sýnir klippingin það skýrt hversu litlu er úr að moða. Á milli nær hvers einasta atriðis eru nokkur skot af náttúrunni í kringum bústaðinn eða af refnum að dunda sér þar í kring. Þau skot þjóna sjaldnast tilgangi nema til að sýna að tími líði á milli atriða. Þau brjóta upp spennuna og koma upp um veikleika handritsins þar sem það er ófært um að færa sig úr einu yfir í annað atriði án þess setja myndina í biðstöðu. Í stað þess brjóta upp spennuna á fimm mínútna fresti hefði verið mun áhrifaríkara að leyfa henni að byggjast hægt og rólega upp. Til þess hefðu persónurnar einnig þurft að fá betri meðferð í handritinu. Margrét Ákadóttir leikur Áslaugu, sem er með litla sem enga sjálfsbjargarviðleitni og jaðrar við að vera algjört kjánaprik. Hún grípur hvert tækifæri til þess að rífast við Jack eða visvítandi reita hann til reiði sem verður til þess að hann ræðst á hana og keflir. Þetta er síendurtekið og manni finnst ekki skrítið að þau endist ekki lengi. Það er Örn Árnason, sem fer með hlutverk Björns, en hann hefur áður leikið í mynd eftir Braga, Harry og Heimir: Morð eru til alls fyrst . Hann fær úr aðeins meiru að moða og honum tekst ágætlega að leika mann sem þarf að þykjast vera glaður yfir því að hitta Jack loksins, þó að hann sé skíthræddur við hann. Leifur Sigurðarson fer með flóknasta hlutverkið sem Jack og tekst vel. Hann er veikur á geði og flakkar á milli þess að vera aumkunarverður, vinalegur, ofsareiður eða leiður. Hann er ákveðin gamaldags hryllingsmynda-hugmynd um brjálæðing en sá karakter virkar nokkuð vel í samhengi gamaldags spennutryllisins sem myndin er að miða á. Það að hann sé flókinn er samt aftur á móti það sem sýnir hvað skýrast hvað myndin veit lítið hvernig hún á að vinna með þessar persónur. Þar sem Jack er spenntur að eyða tíma með Birni, meintum föður sínum, hefði verið mun áhugaverðara að fylgjast með hjónunum báðum reyna að dansa á línunni á milli þess að koma til móts við hann og koma sér undan. Sérstaklega í ljósi þess hversu einangruð þau eiga að vera og þar af leiðandi hjálparlaus. Hugmyndin um einangrunina er þó heldur ekki nógu vel útfærð. Svo virðist sem göngugarpar geti bara valsað um og yfir fjöllin í kring og rambað á bústaðinn og nágranninn sem býr hinum megin í dalnum flýgur fram og til baka í Víkina eins og ekkert sé. Einangrunin felst í takmörkuðu símasambandi frekar en að ekki nokkur sála sé á þessum slóðum. Því verður kvíðinn yfir því að enginn geti komið þeim til bjargar fremur lítilvæglegur. Hér hefði aftur sterkara handrit getað byggt spennu með því að leyfa áhorfendum að finna fyrir tímanum sem líður. Þannig myndu þeir bíða angistarfullir með hjónunum eftir því að einhver kæmi mögulega til bjargar. Myndin virðist aftur á móti vera alltaf að flýta sér að láta hluti gerast. Á sama tíma virðist vanta meira í myndina til þess að réttlæta að hún sé heilar 107 mínútur. Tónlistin er einnig veikur hlekkur myndarinnar í heild. Hún er ágæt sem slík en hún er ofnotuð og vekur mikla athygli til þess að koma til skila að nú sé sorglegt atriði í gangi eða nú sé erfitt atriði í gangi. Í stað þess að hún sé notuð á sparneytinn hátt og fái að malla í bakgrunninum til þess að vekja óhugnaðartilfinningar hjá áhorfendum verður hún yfirþyrmandi og þreytandi. Bragi er reyndur leikstjóri gamanmynda en þó að hann vilji ef til vill leita á ný mið þá veldur Víkin einfaldlega ekki spennunni sem hún gefur sig út fyrir að snúast um. Það glittir þó í mynd sem hefði án efa verið skemmtilegri og nær því sem Bragi hefur fyrir löngu sannað að hann er fær um. Einstaka augnablik eru mjög fyndin, eins og atriðið með fánastönginni og Kanahroki Jacks. Það hefði mátt fara í grínáttina, sem þyrfti alls ekki að vera barnvænt, og gera almennilegt braskbíó, eða exploitation cinema á ensku. Reykjavík Whale Watching Massacre er búin að fjalla um Íslendinga sem drepa túrista en í Víkinni er það túristi að drepa Íslendinga. Á meðan það glittir í gamanhryllingsmynd er Víkin staðráðin í því að vera alvarleg. Hún er að reyna að vinna með þemu um einangrun, náttúruna og karlmennsku en þetta skolast allt til í heildarmyndinni og endar sem sundurslitnar hugmyndir frekar en sterk þematísk mótíf sem þjóna tilgangi. Eins og stendur er handritið því of þunnt og endurtekningarsamt til þess að halda uppi spennu eða áhuga í 107 mínútur. Kolbeinn Rastrick, kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar á Rás 1, rýnir í nýjustu mynd Braga Þórs Hinrikssonar, Víkina. „Á meðan það glittir í gamanhryllingsmynd er Víkin staðráðin í því að vera alvarleg.“ Kolbeinn Rastrick flutti pistilinn í Lestinni á Rás 1. Kolbeinn hefur lokið meistaranámi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands og unnið fyrir kvikmyndahátíðirnar RIFF og Stockfish.