Hyggjast hætta að kaupa auglýsingar á samfélagsmiðlum

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, kynnti í ríkisstjórn í dag áform um að breyta auglýsingakaupum ráðuneytis síns. Í minnisblaði sem hann lagði fyrir ríkisstjórnarfund kemur fram að hætta eigi auglýsingakaupum á erlendum samfélagsmiðlum og leitarvélum. Þess í stað á að skipta við íslenska fjölmiðla. Stefnan gildir fyrst í menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu og stefnt er að því að hún taki gildi um áramót. Í framhaldinu verður mótuð fjölmiðlastefna með leiðbeinandi tilmælum um auglýsingakaup annarra stofnana. Þrátt fyrir að beina eigi auglýsingakaupum til íslenskra fjölmiðla verður ekki algjört bann við auglýsingakaupum á samfélagsmiðlum og í leitarvélum. Kaupa má auglýsingar þar sem beina á að hópi sem ómögulegt er að ná til með öðrum leiðum. Þá skal þó rökstyðja auglýsingakaupin skriflega og liggja fyrir skriflegt samþykki forstöðumanns. Í minnisblaðinu kemur fram að þetta sé liður í vinnu við boðaða fjölmiðlastefnu stjórnvalda. Hún eigi að styðja við íslenska fjölmiðlun og blaðamennsku sem eigi í vök að verjast í alþjóðlegri samkeppni. Um helmingur alls auglýsingafjár hefur runnið til erlendra fyrirtækja síðustu ár. Þrettán milljarðar fóru í auglýsingakaup Íslendinga á erlendum miðlum 2023. „Fyrir vikið renna þessir fjármunir ekki til íslenskra fjölmiðla, sem gegna lykilhlutverki í íslensku samfélagi,“ segir í minnisblaðinu. „Þeir miðla menningu og umræðu, stunda gagnrýna blaðamennsku og stuðla að notkun og sýnileika íslenskrar tungu í alþjóðavæddum heimi.“ Nauðsynlegt er að búa fjölmiðlum gott rekstrar- og stuðningsumhverfi svo þeir séu betur í stakk búnir að mæta alþjóðlegri samkeppni og rækja lýðræðishlutverk sitt, segir í minnisblaðinu.