Mikill léttir að uppfæra 18 ára gamlan kjarasamning

Það er mikill léttir að að nýr kjarasamningur lyfjafræðinga sé í höfn, að sögn Sigurbjargar Sæunnar Guðmundsdóttur, formanns Lyfjafræðingafélags Íslands. „Vegna þess að þetta er búin að vera svakaleg barátta og með svona gamlan samning þá eru kannski væntingarnar svo miklu meiri,“ segir Sigurbjörg í samtali við fréttastofu. Félagsmenn hafi því viljað ná miklu fram í nýjum samningi. „Sem var kannski ekki alveg raunhæft en við erum að stíga skref í rétta átt,“ segir Sigurbjörg. Bjóst allt eins við verkföllum Nýr samningur við Samtök atvinnulífsins var samþykktur með 90 prósentum atkvæða félagsmanna sem starfa í lyfjaiðnaði og 62 prósentum atkvæða þeirra sem starfa í apótekum. Fyrri samningur var orðinn 18 ára gamall og kjarabarátta lyfjafræðinga hefur staðið yfir í um tvö ár. Í vor var nýr samningur felldur með um 90 prósentum atkvæða. Sigurbjörg segir baráttuna fyrir nýjum samningi hafa verið harða. Óvissa hafi verið um niðurstöðuna allt fram á síðustu stundu. „Við vorum búin að gera drög að verkfallsáætlun og sáum í rauninni ekki fyrir okkur að það væri hægt að klára þetta öðruvísi.“ Samningurinn fækkar vinnustundum um 8 á mánuði Hingað til hafa lyfjafræðingar þurft að vinna 19 dögum meira á ári en aðrar háskólastéttir fyrir laununum sínum, að sögn Sigurbjargar. „Það er mikil eftirspurn eftir lyfjafræðingum og þar af leiðandi mikið álag á þeim. Þarna er aðeins verið að komast nær hinni svokölluðu styttingu vinnuvikunnar,“ segir Sigurbjörg og bendir á að vinnustundum fækki um átta á mánuði með samningum sem sé mesta kjarabótin. „Síðan er verið að leiðrétta fyrir alls konar hlutum sem hafa ekki verið í lagi. Það hefur ekki verið greitt rétt í sjúkrasjóð. Það hefur ekki verið til neinn endurmenntunarsjóður og það er verið að leiðrétta þetta núna með þessum samningi sem er mikil kjarabót.“