Samtök Talíbana í Pakistan lýsa ábyrgð á sjálfsmorðssprengjuárás í höfuðborginni Islamabad í dag þar sem tólf voru drepnir. Minnst 27 voru særðir. Þetta er í fyrsta sinn í nokkur ár sem árás af þessum toga er gerð í borginni. Mikil skelfing greip um sig og segja sjónarvottar við AFP að fjöldi fólks hafi þurft að hlaupa eins og fætur toguðu í öruggt skjól. Þegar mestu ósköpin höfðu gengið yfir komu lík fjölmargra í ljós. „Dómarar, lögmenn og embættismenn sem framfylgja óíslömskum lagabókstaf Pakistans voru skotmark árásarinnar,“ segja Talíbanar í Pakistan (TTP) í tilkynningu. Þar hóta samtökin fleiri árásum, verði íslömsk lög ekki innleidd í landinu. Nokkrar opinberar stofnanir eru með skrifstofur nærri vettvangnum. Hermenn hafa girt hann af. Lögfræðingur sem starfar í grenndinni segir við AFP-fréttaveituna að „allir hafi hlaupið burt skelfingu lostnir. Ég er búinn að sjá fimm lík hið minnsta við anddyrið.“ Annar lögfræðingur segir: „Það varð algjör ringulreið. Lögfræðingar og aðrir hlupu inn fyrir hússins dyr og leituðu skjóls þar. Ég sá tvö lík við hliðið og nokkra bíla sem stóðu í ljósum logum.“ Shehbaz Sharif, forsætisráðherra Pakistans, sakaði Talíbana Pakistans um árásina áður en samtökin lýstu yfir ábyrgð sinni. Hann sakaði einnig aðskilnaðarsinna frá Balokistan-héraði, sem teygir sig frá Pakistan til Afganistans í norðri og til Írans í vestri. Ekki hefur svo mannskæð sjálfsmorðssprengjuárás verið gerð í Islamabad síðan árið 2022. Nokkuð friðsælt hefur verið í borginni síðan. En árásum hefur fjölgað lítið eitt undanfarin misseri, sem embættismenn segja að megi rekja til þess að vígamenn geti í auknum mæli fundið sér griðarstað í nágrannaríkinu Afganistan. Til viðbótar við árásina í höfuðborginni í dag gerðu vígamenn árásir í Wana-héraði, nærri landamærunum að Afganistan. Þar hafa pakistanskir hermenn staðið í stappi upp á síðkastið og varð það vopnaskak uppsprettan að landamæradeilu Afgana og Pakistana í síðasta mánuði, þeirri verstu og blóðugustu í áraraðir. Meira en 70 voru drepnir og þar af voru 50 almennir borgarar í Afganistan, að því er Sameinuðu þjóðirnar telja. Vopnahlé var gert en ekki tókst að binda lausa enda og því rann það út í sandinn í síðustu viku. Ríkin tvö hafa skipst á ásökunum um engan samningsvilja. Khawaja Asif, varnarmálaráðherra Pakistans, segir að árásin í Islamabad í dag verði að vekja íbúa landsins til umhugsunar. „Í þessu umhverfi væri það tilgangslaust að halda enn í vonina um árangursríkar samningaviðræður við valdhafana í Kabúl.“