Rannís hefur það hlutverk að staðfesta rannsókna- og þróunarverkefni frá nýsköpunarfyrirtækjum. Sú staðfesting veitir rétt til endurgreiðslu ákveðins hlutfalls af rannsókna- og þróunarkostnaði sem fellur til á umsóknarári og er talinn fram á skattframtali fyrirtækis. Rannís hafnaði um 60% nýrra umsókna frá nýsköpunarfyrirtækjum um styrki, sem skila sér sem skattaafsláttur. Alls bárust um 300 nýjar umsóknir. Helsta orsök höfnunar var að lýsing á verkefni eða verkþættir báru með sér að verkefni væri hluti af reglubundinni almennri starfsemi umsóknarfyrirtækis og uppfyllti því ekki þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar til að Rannís samþykki þau sem rannsókna- og þróunarverkefni. Nemur 16-17 milljörðum króna Ágúst Hjörtur Ingþórsson er forstöðumaður Rannís og segir að umfang styrkja hafi vaxið mjög frá árinu 2011. „Þetta úrræði hefur þróast svolítið á þessum rúma áratug og hefur vaxið mjög að umfangi. Þetta var innan við milljarður á fyrsta árinu en áætluð útgjöld í ár eru milli 16 og 17 milljarðar króna. Stærstu endurgreiðslurnar geta hlaupið á 2-300 milljónum.“ Tafir urðu á afgreiðslu umsókna og biðst Rannís velvirðingar á því gagnvart öllum hlutaðeigandi. Aukinn fjöldi umsókna síðustu ár hefur aukið álag á starfsfólk og þá hefur þurft að kalla eftir ítarlegri gögnum frá fyrirtækjum. „Samhliða þessari aukningu á fjármagni hefur sóknin aukist mjög mikið og það er æ meira af umsóknum þar sem að rannsóknar- og þróunarþátturinn er ekki nægilega skýr. Þess vegna er það að gerast núna í ár að við erum að hafna fleiri nýjum umsóknum en áður. Þetta eru vissulega nýsköpunarfyrirtæki sem sækja um en þau fá höfnun þegar þetta er orðið meira hluti af þeirra innri rekstri.“ 240 fyrirtæki fá styrki Tæpum 58% nýrra umsókna var hafnað í ár og 42% voru samþykktar. Alls bárust um 300 nýjar umsóknir. Tæp 84% framhaldsumsókna voru samþykkt. „Auðvitað verða fyrirtækin svekkt ef við höfnum. Það er mjög vont fyrir nýsköpunarfyrirtæki sem eru í fjármögnunarferli og gera sér væntingar um þessa endurgreiðslu, sem nemur stundum jafnvel tugum milljóna hjá fyrirtækjum sem eru framarlega í þróunarferli. Þá skiptir það verulegu máli í samtali við fjárfesta hvort þetta kemur eða ekki.“ Ágúst segir að þrátt fyrir að Rannís sé að hafna fleiri umsóknum þá sé samt mikill fjöldi fyrirtækja að njóta þessa stuðnings. Um 240 fyrirtæki fá styrki í ár. Fjöldi þekktra líftækni- og hugbúnaðarfyrirtækja hefur náð flugi vegna styrkjanna. „Þau hefðu aldrei komist þangað sem þau hafa komist og hefðu aldrei skapað þessi útflutningsverðmæti ef ekki hefði verið fyrir þennan stuðning,“ segir Ágúst.