Hægst hefur á aflögun undir Svartsengi

Aflögunarmælingar Veðurstofu Íslands sýna að landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram. Þó hefur smám saman dregið úr hraða kvikuinnstreymis. Veðurstofan segir að miðað við fyrri atburði á Reykjanesskaga aukist líkur á kvikuhlaupi og eldgosi þegar ákveðið magn af kviku hefur safnast undir Svartsengi. Um 15 milljón rúmmetrar af kviku hafa safnast undir Svartsengi frá því að það síðast gaus í júlí. Magn kviku sem runnið hefur úr Svartsengi í eldsumbrotum frá því í mars 2024 hefur verið mjög breytilegt, allt frá 12 og upp í 31 milljón rúmmetra. Í hættumati Veðurstofunnar segir hins vegar að þar sem hægst hefur á innflæði sé mögulegt að lengra geti verið á milli gosa. Lítil jarðskjálftavirkni Jarðskjálftavirkni við Grindavík og á Sundhnúksgígaröðinni er lítil. Flesta daga mælast aðeins fáeinir smáskjálftar sem eru rétt um 1 að stærð. Aflögunarmælingar sýna að landsig sem hófst í Krýsuvík í sumar hefur hægt mjög á sér og aflögun er nú lítil sem engin á svæðinu. Jarðskjálftar í Krýsuvík mælast enn nokkrir á dag, en virkni hefur dregist verulega saman. Heildarfjöldi skjálfta hefur farið úr 250 niður í 100 til 150 á viku.