Dagur einhleypra er í dag og síðar í mánuðinum auglýsa verslanir tilboð í nafni svarts föstudags og rafræns mánudags. Viðmælendur fréttastofu sem staddir voru í Smáralind í Kópavogi og við Norðurtorg á Akureyri í dag höfðu margir hverjir verslað eitthvað á tilboði eða voru komnir til að gera góð kaup. Þau sögðust þó ekki finna fyrir kvíða sem stundum hefur verið lýst í tengslum við mikið auglýsta tilboðsdaga á þessum árstíma, kvíða eða pressu að ná að kaupa allt sem vantað gæti eða missa af kostaboði. Gyða Mjöll Brynjólfsdóttir segist í fyrstu ekki beinlínis finna fyrir slíkum kvíða. „En maður fer að horfa meira í kringum sig og svona, skoða hvað er í boði og maður vill auðvitað ná að nýta það, nýta nóvembermánuðinn - það er mikið í gangi þá. Þannig að jú að einhverju leyti,“ segir Gyða Mjöll. Það er gott að nýta nóvembermánuð til að versla það sem þarf að versla segja viðmælendur fréttastofu, þeir finna ekki fyrir kvíða eða stressi að ná að nýta tilboðin sem bjóðast á degi einhleypra.