Stöðva starfsemi Vélfags tímabundið

Starfsemi fyrirtækisins Vélfag hefur verið stöðvuð tímabundið á meðan beðið er dóms í máli þess gegn íslenska ríkinu. Stjórnendur Vélfags tilkynntu um þetta á Facebook -síðu fyrirtækisins. Ástæðan er sögð ákvörðun utanríkisráðuneytisins að framlengja ekki undanþágu Vélfags frá þvingunaraðgerðum ESB. Öll starfsemi fyrirtækisins verður stöðvuð á meðan beðið er dóms í máli fyrirtækisins gegn íslenska ríkinu. Vélfag varð á þessu ári fyrsta og eina íslenska fyrirtækið sem féll undir efnahagsþvinganir ESB. Vélfag, sem var áður í eigu rússneska útgerðarfélagsins Norebo, hefur haldið því fram að engin tengsl séu lengur við Norebo og eigendur þess Vitaly og Nikita Orlov. Fyrirtækið hefur hingað til getað starfað á undanþágum frá utanríkisráðuneytinu en í gær hafnaði ráðuneytið frekari framlengingu á henni. Samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins í gær var sú ákvörðun tekin á þeim forsendum að fyrirtækið hafi ekki skilað Arion banka gögnum sem staðfest gætu að sala á fyrirtækinu frá Norebo hafi verið raunveruleg og sönn. Í tilkynningu Vélfags segir að ákvörðun ráðuneytisins hafi svipt fyrirtækið aðgengi að eigin fjármunum og gert því ómögulegt að sinna daglegum rekstri. Þar með talið greiðslum til starfsfólks og þjónustu við viðskiptavini. „Við erum miður okkar að geta ekki sinnt íslenskum og erlendum viðskiptavinum okkar á meðan, þar á meðal útgerðum sem reiða sig á þjónustu okkar og varahluti,“ segir í tilkynningu Vélfags.