Stólar á fyrirtæki á Suðurnesjum til að nýta úrræði Vinnumálstofnunar

Aðgerðir Vinnumálastofnunar vegna mikils atvinnuleysis á Suðurnesjum gætu haft talsverða þýðingu að mati Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar. Til þess að svo megi verða þurfi atvinnurekendur að nýta sér þau úrræði sem standa til boða. „Þeir eru ekki endilega fyrstir á vettvang þegar þessi staða er uppi. En ég vona að þeir geri það núna,“ segir Kjartan í samtali við fréttastofu. Meðal þeirra vinnumarkaðsúrræða sem standa til boða er sérstakur ráðningarstyrkur. Atvinnurekendur geta fengið styrk í allt að sex mánuði sem nemur fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta að nokkrum skilyrðum uppfylltum. Í dag er sú fjárhæð 364.895 krónur á mánuði. Atvinnutorg sett á laggirnar Vinnumálastofnun hefur gripið til aðgerða og opnað atvinnutorg á Suðurnesjum til að styðja þá sem misst hafa vinnuna. Atvinnuleysi var þar 7,1% í síðasta mánuði, samanborið við 3,9% á landsvísu. Á sérstöku atvinnutorgi Vinnumálastofnunar geta atvinnulausir fengið ýmiss konar aðstoð, til dæmis við umsóknir um atvinnuleysisbætur, við uppfærslu á ferilskrá og umsóknir um störf. Vinnumálastofnun veitir atvinnurekendum auk þess upplýsingar um vinnumarkaðsúrræði, ráðningarstyrki og aðstoðar fyrirtæki við að finna starfsfólk. Skoða hvort bærinn geti bætt við sig starfsfólki Kjartan segir Reykjanesbæ ekki hafa gripið til sérstakra ráðstafana vegna ástandsins en til skoðunar sé hvernig bærinn geti bætt við sig starfsfólki í samráði við Vinnumálastofnun. Fyrirtækin þurfi þó einnig að koma að borðinu. „Við verðum fyrst og fremst að treysta á að fyrirtækin bregðist við og svo þurfa sveitarfélögin að gera það líka,“ segir Kjartan. „Enginn getur allt en allir geta eitthvað. Það er svona slagorð sem við viljum vinna með.“ „Við komumst í gegnum þetta“ Spurður að því hvort ástandið komi ekki til með að bitna á bæjarsjóði segir Kjartan: „Það er alveg viðbúið en þetta er ekki í fyrsta sinn sem við lendum í miklu atvinnuleysi hér á okkar svæði. Við erum svolítið svona eins og harmonikka. Stundum vantar fólk og stundum er atvinnuleysi. Fjölgunin hjá okkur undanfarin ár hefur verið gríðarleg. Íbúum hér hefur fjölgað um 60% á tíu árum út af miklum uppgangi í atvinnulífi og þá sérstaklega í kringum Keflavíkurflugvöll og á meðan staðan hefur verið þannig þá hefur vantað fólk í vinnu frekar en hitt.“ Hann segir Suðurnesjamenn þó reglulega hafa glímt við mikið atvinnuleysi, einkum á þessum árstíma. „Við komumst í gegnum þetta. Ég veit það,“ segir Kjartan Már.