Google ræðst í risafjárfestingar í Þýskalandi

Tæknirisinn Google kynnti í dag sína stærstu fjárfestingu í Þýskalandi til þessa, sem nemur um 5,5 milljörðum evra, andvirði 805 milljarða króna. Meðal annars stendur til að reisa gagnaver og aðra innviði sem nýta má við þróun gervigreindar. Ríki Evrópu reyna í sífellt meiri mæli að sækja á í gervigreindarkapphlaupinu, sem bandarísk og kínversk fyrirtæki eru sögð leiða. „Við erum að keyra upp hagvöxt í Þýskalandi,“ sagði Friedrich Merz, kanslari Þýskalands, í dag þegar áformin voru kynnt. Um 9 þúsund störf eru sögð munu skapast. „Land okkar er og verður áfram eitt það allra mest aðlaðandi í augum fjárfesta um heim allan,“ sagði Merz einnig. EPA / FILIP SINGER