Vonar að sem fæstir verði vistaðir í brottvísunarbúðum og svarar yfirhalningu háskólaprófessors

Útlendingamál hafa verið heita kartaflan í íslenskri stjórnmálaumræðu en það segir kannski sitt um breytta tíma að í dag eru ráðherrar helst skammaðir af stjórnarandstæðingum fyrir að ganga ekki nógu langt í þessum málaflokki. Spurningin er hvort íslensk stjórnvöld muni ekki bara segjast hafa áhyggjur, heldur bregðast við og gera eitthvað. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur nú nýverið, a.m.k. í tvígang, lýst áhyggjum af þróuninni en hvers er að vænta í aðgerðum sem virka og hafa einhver raunveruleg áhrif? (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Alþingi í síðustu viku) Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, svaraði þessari óundirbúnu fyrirspurn frá formanni Miðflokksins á þann veg að áfram yrði tekið á móti fólki sem sannarlega væri á flótta á mannúðlegan hátt en stefna stjórnvalda væri skýr og aðgerðirnar yrðu það líka. Umdeildar og lokaðar brottvísunarbúðir En hverjar eru þessar aðgerðir? Í síðustu viku leit dagsins ljós frumvarp um lokaðar brottvísunarbúðir sem verða á ábyrgð lögreglustjórans á Suðurnesjum. Starfsfólk búðanna fær heimild til að beita valdi og verði frumvarpið samþykkt verða búðirnar opnaðar í júní á næsta ári. Áætlaður kostnaður er um hálfur milljarður á ári. Bæði Stígamót og Kvennaathvarfið gjalda varhug við þessum brottvísunarbúðum; í umsögn við frumvarpsdrögin sögðu samtökin að þær yrðu síst til að auka vernd þolenda mansals og annars ofbeldis. Rauða krossinum þótti betra að nota orðið varðhaldsbúðir - hið milda yfirbragð breytti því ekki að þarna yrði fólk svipt frelsi sínu, mögulega til margra mánaða og flest án þess að hafa framið nokkurn glæp. Engin má vera lengur í brottvísunarbúðunum en átján mánuði. Segir búðirnar vægara og mildara úrræði en gæsluvarðhaldsvist Á þessu ári hafa tuttugu og níu útlendingar sem bíða brottvísunar verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald í fangelsinu á Hólmsheiði; allt árið í fyrra voru þeir fimmtíu og fjórir og dómsmálaráðherra telur að brottvísunarbúðirnar séu vægara úrræði en þau sem stuðst er við í dag. „Við erum eina Schengen-ríkið sem er ekki með þetta úrræði og höfum sætt gagnrýni frá alþjóðlegum eftirlitsaðilum fyrir að eiga ekki þetta úrræði.“ Gagnrýnin sé sú að íslenska leiðin í dag sé ómannúðleg; að vista fólk í fangelsum, taka börn frá foreldrum sínum og vista þau í umsjá barnaverndaryfirvalda af því að foreldrarnir séu í fangaklefa. „Þegar gagnrýni kemur fram spyr ég; hvað viljum við í staðinn?“ Hún vonar samt sem áður að fæstir verði vistaðir í þessum lokuðu búðum. Markmið með þessum búðum sé að þegar íslensk stjórnvöld hafi tekið ákvörðun um að synja viðkomandi um alþjóðlega vernd , hann fengið nei á öllum stigum kæruferlis og ætli ekki að viðurkenna þá ákvörðun heldur vera ósamvinnufús „þá notum við þetta úrræði,“ segir Þorbjörg Sigríður. Þetta eigi að vera algjört lokaskref í ferlinu. „Það er alls ekki þannig að allir útlendingar sem fá nei þurfi að fara þangað inn. Það fólk sem sýnir samvinnu gerir það ekki.“ Þessi leið er að mati ráðherrans langtum mýkri en sú leið sem farin sé í dag. „Vilja menn kannski halda hinni leiðinni óbreyttri og vera þá í þeirri stöðu að geta ekki framfylgt ákvörðunum íslenskra stjórnvalda?“ Væri óheiðarlegt að kalla búðirnar ekki þvingunarúrræði Þorbjörg nefnir sem dæmi að í dag séu yfir hundrað útlendingar skráðir týndir í íslenskum kerfum, meirihluti þeirra er talinn hafa yfirgefið landið en þetta þýði þó að mögulega séu einhvers staðar týnd börn sem gangi ekki í skóla. Brottvísunarbúðirnar séu ekkert óskamál að mæla fyrir á Alþingi en hún hafi trú á þessari leið þegar horft sé til hinna valkostanna. Í samhengi hlutanna sé þetta vissulega þvingunarráðstöfun og það væri óheiðarlegt að tala um búðirnar með öðrum hætti. „Það er verið að gera þetta með eins mildilegum hætti og mögulegt er og þarna verða sérfræðingar sem taka tillit til fólks í viðkvæmri stöðu. Ég sem ráðherra jafnréttismála með mikinn áhuga á kynbundnu ofbeldi mun gera allt sem ég get til að tryggja öryggi þeirra kvenna sem þarna verða í viðkvæmri stöðu.“ Telur námsmannaleyfi einn helsta veikleikann Annað mál ráðherrans í málaflokknum hefur líka verið gagnrýnt; það tengist námsmannaleyfum erlendra nema, að þau séu nýtt til að setjast hér að frekar en að fara í nám. Drög að frumvarpinu voru lögð fram í samráðsgátt nýverið og þar sagði ráðuneytið að þessi leyfi væru einn helsti veikleikinn í íslenska dvalarleyfiskerfinu. Þorbjörgu Sigríði finnst tímabært að afnema sér-íslenskar reglur og vill taka hér upp sameiginlega, norræna reglusetningu og framkvæmd. Umræðan um útlendingamál hafi of mikið snúist um alþjóðlega vernd en málaflokkurinn sé miklu stærri en svo og veiting dvalarleyfa einn angi af honum. Hópur sérfræðinga hafi verið fenginn til að skoða þennan þátt út frá því hvort reglurnar hér væru á skjön við framkvæmd annarra landa. „Í millitíðinni hafa mér borist upplýsingar frá Útlendingastofnun og Háskóla Íslands um að það séu merki þess að leyfin séu nýtt til að komast inn í landið undir öðrum formerkjum en að vera í námi.“ Ekki önugur ráðherra að fetta fingur út í eitthvað sem ekki er Fólk geti haft ólíkar skoðanir á því hversu opið kerfið eigi að vera en henni finnst sjálfstætt markmið að það sé gagnsæi í því. „Sé eitthvað markmið í reglunum þá séum við í þeirri stöðu að geta náð því fram.“ Þetta sé ekki eingöngu vandamál hér. Á ráðherrafundi í Helsinki með ráðherrum útlendingamála í hinum Norðurlöndunum hafi kveðið við sama tón. „Þannig að hér er ekki einhver önugur ráðherra að fetta fingur út í eitthvað sem ekki er. Þetta er staða málsins og ég er bregðast við henni,“ segir Þorbjörg og leggur á það áherslu að þetta snúi fyrst og síðasta að styttri námsleiðunum, svokölluðu diplómanámi. Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt frumvarpið er Gauti Kristmannsson, prófessor við Háskóla Íslands. Hann kallaði þetta ódýrt lýðskrum í aðsendri grein á Vísi og sagðist við fréttastofu nýverið ekki kannast við að erlendir nemendur væru að misnota námsmannaleyfið. Framsetning ráðherra væri furðuleg enda væru leyfin háð ströngum skilyrðum og hann sæi þess ekki merki að erlendir nemendur sæktu um í öðrum tilgangi en að leggja stund á nám. „Auðvitað viljum við að háskólarnir séu alþjóðlegir í öllu sínu starfi og það er ákveðið súrefni fyrir háskóla að svo sé. Einhver yfirhalning frá fínum mönnum í háskólanum að hlutirnir séu ekki eins og þeir eru. Ég er með gögn og yfirlýsingar frá þeim sem til þekkja og ég bregst við í samræmi.“ Dómsmálaráðherra er sannfærð um að mál hennar nái að fram að ganga á þessu þingi. „Varðandi brottfarabúðirnar vil ég segja að það mál hefur verið afgreitt úr þingflokkum allra stjórnarflokkanna og ég ætla að gefa mér það að Alþingi hafi þroska til að horfa framan í það mál og sjá það eins og það er en ekki þær upphrópanir sem heyrast sumsstaðar.“