„Það er heilt samfélag við Skorradalsvatn undir“

Bændur, veiðimenn og sumarhúsaeigendur í Borgarfirði eru ósáttir við hvernig Andakílsárvirkjun stjórnar vatnshæð í Skorradalsvatni og rennsli Andakílsár. Þeir kvarta undan blautum túnum, landrofi, öryggi veiðimanna, áhrifum á mannvirki og hvarfi gönguleiða meðfram vatninu. Í Skorradal í Borgarfirði er lengsta vatn landsins, Skorradalsvatn. Úr vatninu rennur Andakílsá, sem var virkjuð um miðja síðustu öld. Nú rekur Orka náttúrunnar virkjunina. Áralöng deila Í byrjun tíunda áratugarins var stíflan hækkuð um hálfan metra. Við það upphófst ágreiningur milli landeigenda og forsvarsmanna virkjunarinnar um yfirborðshæð vatnsins sem enn ekki hefur tekist að greiða úr. „Fyrst og fremst er það bara orðið alveg ofboðslega hátt, vatnsyfirborðið,“ segir Þórhildur Jóhannesdóttir, bóndi á Grund í Skorradal. Orka náttúrunnar notar Skorradalsvatn sem uppistöðulón og stjórnar því hversu miklu vatni er hleypt á virkjunina og þaðan í Andakílsá. Um miðjan september er byrjað að safna vatni til að tryggja raforkuframleiðslu fram að leysingum um vorið. Í haust hefur Þórhildur tekið eftir því að ágangur gæsa á túnin hefur verið minni en venjulega. Það eru þó ekki endilega gleðifréttir. „Ég vil frekar hafa gæsina heldur en vatnsyfirborðið þetta hátt því að þá eru túnin blaut.“ Vatnsbúskapur raforkuframleiðslu betri í ár en oft áður Raforkuframleiðendur fagna því að meira vatn er í uppistöðulónum en hefur verið síðustu ár. Vatnsyfirborð Skorradalsvatns er hærra en það hefur verið síðan 2019. Bleytan eykur mosa í túnum og hefur áhrif á nýtingu þeirra. Bændur hafa áhyggjur af landrofi við bakkann og áhrifum á lífríkið. Þórhildur segir samtal við Orku Náttúrunnar ekki hafa borið árangur. „Þau hafa ekki sýnt vilja til að vinna með þeim sem eru kunnugir staðháttum sem eru náttúrulega bændur hér við vatnið.“ Hún bendir á að það eru ekki bara bændur sem kvarti. „Það hefur miklu meiri afleiðingar heldur en bara fyrir okkur, þetta er ekkert bara við, þetta er heilt samfélag hérna við vatnið sem er undir,“ segir Þórhildur. Sumarhúsaeigendur funduðu með ON Í Skorradal er talsverð frístundabyggð. Í landi Vatnsendahlíðar eru á annað hundrað sumarhúsa. Eigendur þeirra funduðu með Orku náttúrunnar í lok október vegna vatnshæðarinnar. Stefnt er að öðrum fundi eftir jól þegar búið verður að afla frekari gagna. Húseigendurnir kvarta yfir því að ströndin niðri við vatnið sé að hverfa. Það hamli ekki bara útivist og náttúruupplifun heldur sé það líka öryggisatriði. Aðeins einn vegur er til að rýma dalinn ef til gróðurelda eða aurskriða kemur, nema hægt sé að keyra eftir ströndinni. Þá ógni vatnshæðin mannvirkjum við vatnið. Heilt samfélag við SKorradalsvatn verður fyrir áhrifum þegar vatnsborðið hækkar, segir bóndi í Skorradal. Eigendur Andakílsárvirkjunar, sem stjórnar vatnshæðinni, segja lífríki ekki ógnað og opinberum viðmiðum um vatnshæð fylgt. Öryggi veiðimanna í Andakílsá ógnað Fyrir neðan virkjunina tekur annað vandamál við. Andakílsá er laxveiðiá en landeigendur í veiðifélaginu kvarta undan áhrifum af því hvernig rennslinu er stýrt. rennslisstýringar virkjunarinnar. „Það eru svo snöggar rennslisbreytingar í ánni að rennslið getur þrefaldast á hálftíma, sem hefur gríðarleg áhrif bæði fyrir öryggi veiðimanna, ég óttast það að það valdi einhverjum skaða,“ segir Ragnhildur Helga Jónsdóttir, formaður Veiðifélags Andakílsár. Á morgnana þegar aukin eftirspurn er eftir raforku er meira vatni hleypt á stífluna og út í ána. Seinni partinn er skrúfað fyrir aftur. „Það er það sem við höfum sett mjög mikið spurningarmerki við og reynt að fá orku náttúrunnar til að breyta starfsháttum til að það séu mildari sveiflur í þessu.“ Hún segir lífverur í ánni þurfa að þola sveiflurnar í vatnshæðinni og þetta geri bændum erfitt fyrir að byggja upp veiðina í ánni. Í svörum ON við spurningum fréttastofu kom fram að umfangsmikil greiningarvinna á rennsli í Andakílsá stæði yfir, í samstarfi við erlenda sérfræðinga, um hvernig hægt sé að bæta rennslis- og vatnshæðarstjórnun í ánni þannig að það taki meira tillit til búsvæða fiska og lífríkis. Í sumar kvartaði veiðifélagið í tvígang við Orku náttúrunnar undan sveiflum í ánni. „Það er þessi svakalega hætta sem myndast veiðimenn fara yfir ána í lágu rennsli og gera sér ekki grein fyrir því þegar þeir fara til baka að þá hafi rennsli þrefaldast,“ segir Ragnhildur. „Þá getur þetta skapað stórhættu og við höfum alveg dæmi um það að veiðimenn hafi flotið upp og bara hreinasta mildi að ekki hafi orðið stórslys.“ Segir vatnshæð innan viðmiða og samtalið mikilvægt Árni Hannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, tekur hvorki undir að samtalið við landeigendur hafi verið stirt, né að ekkert hafi verið að gert. Þau séu í góðu samtali við veiðifélagið og séu alltaf að reyna að gera betur. Í svörum við spurningum fréttastofu kemur fram að Orkustofnun gefi leyfi til þess að vatnsborð vatnsins á miðlunartíma hækki um allt að 50 sentimetra. Það jafngildi því að hæsta leyfilega vatnsborð Skorradalsvatns sé 63,20 metrar yfir sjávarmáli á veturnar. „Þetta eru bara opinber mörk sem koma bara frá stofnunum,“ segir Árni. „Þetta er ekki sett af okkur, við erum meira að segja með enn þrengri mörk en það til að reyna að vinna enn betur með þetta.“ Mörk Orku náttúrunnar segja að eftir 15. september megi vatnsborðið ekki fara yfir sextíu og tvo komma fimmtíu og þrjá (62,53) metra yfir sjávarmál. Síðustu 20 ár hefur það gerst um tíu haust. Frá 2019 hefur vatnsstaða almennt verið lág en í haust fór vatnshæðin að og yfir mörkin. „Lónsstaða í dag er mjög há, bara almennt á öllu Íslandi vegna þess að veður er búið að vera gott,“ segir Árni. Hann bendir á að það hafi líka komið ár þar sem vatnsyfirborðið hafi verið of lágt. Hvað landrof, blaut tún og ágang vatns á mannvirki við vatnið varðar segir Árni að skoða þurfi málið betur. Nýleg úttekt Hafrannsóknastofnunar á ástandi lífríkisins sýni að þrátt fyrir að vatnið sé undir áhrifum að vatnsborðsbreytingum sé vistkerfið í Skorradalsvatni heilbrigt. Þar kom líka fram að ástand Andakílsár milli Skorradalsvatns og virkjunarinnar væri ekki viðunandi.