Willum Þór segist íhuga formannsframboð

Willum Þór Willumsson segist íhuga formannsframboð til Framsóknarflokksins. MBL greindi fyrst frá. Í vor var hann kjörinn forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands með afgerandi kosningu. Hann viðurkennir að það setji hann í erfiða stöðu að vera nýtekinn við embættinu en að hann hafi fengið mikla hvatningu frá flokksfólki Framsóknar til formannsframboðs. Sigurður Ingi Jóhannsson hættir sem formaður Framsóknarflokksins á flokksþingi sem verður á næstu mánuðum. Hann hefur verið formaður flokksins í níu ár. Willum segir í viðtali við Morgunblaðið að hann finni til ábyrgðar og vilji leggja sitt af mörkum, því sé það minnsta sem hann geti gert að íhuga framboð þó að tímasetningin sé vandasöm. Willum segist ekki hafa verið að sækjast eftir sætinu og að nú sé hann að máta sig í hlutverkið. Willum sat á þingi fyrir flokkinn á árunum 2013–2016 og 2017–2024. Hann gegndi einnig stöðu heilbrigðisráðherra frá 2021–2024 en datt út af þingi í síðustu alþingiskosningum.