Leyfisskyld lyf eru oft kostnaðarsöm og þannig á sérstökum lið í fjárlögum. Fjárlög næsta árs eru í fjárlaganefnd eftir fyrstu umræðu. „Það vantaði töluvert inn í fjárlagaliðinn á yfirstandandi ári og við höfum áhyggjur af næsta ári,“ segir Hlíf Steingrímsdóttir, forstöðulæknir hjarta-, augn- og krabbameinsþjónustu á LSH og varaformaður lyfjanefndar. „Þó að það hafi verið gefið aðeins inn í fjárlagaliðinn vantar svona einn milljarð til að við getum staðist þær áætlanir sem við höfum gert,“ bætir hún við. Tíu ábendingar og umsóknir fyrir ný krabbameinslyf bíða afgreiðslu Lyfjanefndar spítalans. Lyfin hafa verið samþykkt í hluta Norðurlandanna. Hlíf segir það há Íslandi að markaðurinn sé lítill og erfiðara að gera hagstæða samninga um lyfjaverð og því gæti verið hagur að því að fara í samstarf við Norðurlöndin um sameiginleg innkaup. Hvað þýðir þetta fyrir sjúklingana og krabbameinslækningar í heild sinni? „Ef við getum ekki innleitt ný lyf og nýjar meðferðir þá drögumst við aftur úr. Og við erum aðallega að miða við hin Norðurlöndin og Evrópu. Þá eru færri meðferðarmöguleikar í boði hér og það er ekki gott fyrir þá sem greinast með krabbamein og það sem við viljum bjóða hér. Við viljum standast samanburðinn við Norðurlöndin,“ segir Hlíf. Þannig að þetta gæti jafnvel skipt sköpum og jafnvel verið lífsbjörg fyrir fólk að fá þessi lyf? „Þau lyf sem við viljum innleiða hafa sýnt ávinning og sem er þá lækning eða lengri lifun eða sjúkdómshlé, það skiptir auðvitað máli.“ Megum ekki missa af lestinni Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, segir miklar framfarir hafa orðið í meðferðum krabbameina á seinustu árum. Þennan árangur segir hún fyrst og fremst vera tilkominn vegna framfara í lyfjameðferðum. Rætt var við hana í kvöldfréttum. „Fimm ára lifun er núna 74%, sem þýðir að þeir sem greinast með krabbamein geta vænst þess að lifa að meðaltali í fimm ár, en var ekki nema 55% fyrir um 20 árum síðan, þetta er auðvitað gríðarlegur munur.“ Hætt er við því að krabbameinslækningar hér dragist aftur úr Norðurlöndunum ef ekki fæst fjármagn til innleiðingar nýrra lyfja. Umsóknir um tíu krabbameinslyf eru í biðstöðu. Halla segir það skipta öllu máli að missa ekki af lestinni í lyfjaframþróun hérlendis. Krabbameinsfélagið sendi ályktun til heilbrigðisráðherra varðandi málið en vísbendingar eru um að framfarirnar séu ekki jafn hraðar hér á Íslandi og á Norðurlöndunum. Halla segir að enn hafi ekki nein svör borist frá heilbrigðisráðherra en að segja megi að svörin liggi í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þar komi fram að markmiðið sé að heilbrigðisþjónusta sé framúrskarandi og að landsmenn skuli njóta bestu mögulegu heilsu. „Það auðvitað kannski segir það sem segja þarf, það þarf aðgerðir til þess að fylgja þessum orðum og gera þau að veruleika að markmiðin náist og við treystum því, lífið liggur við.“ segir Halla.