Benjamín Júlían, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ, segir jólin í ár kosta meira heldur en í fyrra, það megi meðal annars rekja til hárrar matarverðbólgu. Á einu ári hefur lambakjöt hækkað um rúmlega 16% og þá hafi súkkulaði og kaffi eins verð á miklum hækkunartakti seinustu misseri. Hann segir einnig vert að neytendur athugi verðlag á týpískum jólavörum, sérstaklega þegar þær eru nýkomnar í verslanir. Algengt sé að verðið sé uppsprengt fyrstu dagana eftir að vörurnar koma í búðir. „Verslanir leggja þær oft inn á einhverju sem er öruggt verð fyrir þær og leiðrétta þær svo nokkrum dögum síðar.“ Benjamín segir það jafnvel skynsamlegt að versla seint inn fyrir jólin. „Í fyrsta lagi að þá detta vörurnar inn oft á þessu háa verði en í öðru lagi stundum sér maður í verðtaktinum hvernig verslanirnar verða oft hræddar um að ná ekki að koma út lagernum þegar jólin nálgast.“ Skýrustu birtingarmyndina segir hann vera þegar jóladagatöl falla í verði strax annan desember. Tilvalið sé að kaupa sér dagatöl á ódýrara verði og sleppa þá fyrsta glugganum. Hann segir það greinilegt að pressan á verslanir að koma út jólavörum aukist þegar líði að jólum. „Ef við komum okkur öll saman og verslum þetta ekki fyrr en seint þá getum við kannski keyrt niður verðið á þessu.“ Verðhækkun á súkkulaði og kaffi er töluverð milli ára, sama er uppi á teningum með lambakjöt. Benjamín telur þess vegna að vegan-jól verði ódýrari en lambakjötsjól en að tannkremsverð fari lækkandi og tilvalið sé að bursta á sér tennurnar eftir dýru máltíðarnar. „Það sem ég er að sjá eru bara nokkrir flokkar sem eru að hækka rosalega mikið, aðrir flokkar hækka minna, það er svona það sem ég er að segja að það eru nokkrir flokkar sem standa út úr.“ Verðbólgu segir Benjamín vera flókið ástand þegar hún er á svo breiðum grunni. Hann segir að matarhækkanir verði yfirleitt meiri heldur en aðrar verðhækkanir og þá sé það ódýri maturinn sem hækkar fyrst og hraðast. „Til dæmis núna er verðlag á Íslandi að hækka talsvert á innlendum vörum og það eru vörur sem að fólk á bara svolítið erfitt með að klippa út úr sínum daglega rekstri. Við getum ekki öll bara borðað tannkrem og cheerios, við þurfum líka að kaupa mjólk og egg.“ Verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ segir að jólin munu kosta meira í ár heldur en í fyrra. Verðhækkanir séu einna helst á lambakjöti, súkkulaði og kaffi. Farið var nánar yfir málið í Kastljósi kvöldsins.