„Það er kominn einhver meðbyr og ég er búinn að gera eitthvað með þetta. En ég er bara stöðumælavörður og er bara að gera þetta á TikTok og njóta mín akkúrat núna. Svo veit maður aldrei hvað er að fara að gerast.“ Kjartan Logi Sigurjónsson hefur slegið í gegn á samfélagsmiðlum með grínsketsum á undanförnum mánuðum. Hann hefur verið áberandi á TikTok og Instagram og segir samfélagsmiðla vera frábæran vettvang fyrir fólk sem vill koma sínu efni á framfæri, hann segist sjálfur vera sáttur með sitt en að markmiðið sé að búa til efni fyrir sjónvarp. „En það sem ég vil gera er að gera eitthvað fyrir sjónvarp. Mér finnst það vera aðeins stærra, þá get ég stækkað myndina sem ég hef.“