Rússar segjast hafa kæft samsæri Úkraínumanna og Breta gegn sér í fæðingu

Rússneska leyniþjónustan FSB segist hafa stöðvað í fæðingu samsæri Breta og Úkraínumanna um að ræna MIG35 orrustuþotu sem ber ofurhljóðfráa eldflaug. Ætlunin hafi verið að sviðsetja „stórfellda ögrunartilburði“ með því að fljúga þotunni í átt til NATO-herstöðvar við Svartahaf í Rúmeníu. Þar hefði hún verið skotin niður. Úkraínumenn og Rúmenar þvertaka fyrir ásakanirnar og segja Rússa með þeim dreifa áróðri. Það sé dæmigerð hegðun þarlendra njósnastofnana og tilgangurinn sé að ógna vestrænum samfélögum og grafa undan stuðningi við Úkraínumenn. Rúmenska utanríkisráðuneytið segir ásakanirnar uppspuna sem minni helst á njósnasögu frá Sovéttímanum. Rússar hafa iðulega sakað Úkraínumenn og evrópska samherja þeirra um skemmdarverk á rússneskri grundu, oft án nokkurra sannana. FSB segir varnarmálaráðuneyti Úkraínu standa að baki samsærinu og að það hafi ætlað að ginna rússneska flugmenn til samstarfs með loforði um þriggja milljóna bandaríkjadala greiðslu og ríkisborgararétt í vestrænu ríki. Ríkismiðlar í Rússlandi birtu myndskeið þar sem rússneskur hermaður með andlitið hulið sagðist hafa fengið tölvupóst frá úkraínskum leyniþjónustumanni sem reyndi að ráða hann til starfans.