Lögregla í Þýskalandi handtók tæplega fimmtugan þýsk-pólskan karlmann á mánudaginn í Dortmund sem sakaður er um að hafa á huldunetinu hvatt til morða á embættis- og stjórnmálamönnum. Þeirra á meðal eru Angela Merkel og Olaf Scholz, fyrrverandi kanslarar, samkvæmt upplýsingum heimildarmanna AFP innan dómskerfisins, dómarar og saksóknarar. Ríkissaksóknari segir manninn, sem hefur að þýskum hætti verið nafngreindur sem Martin S., hafa birt dauðadóma sem hann samdi sjálfur auk viðkvæmra persónuupplýsinga um væntanleg skotmörk. Hann er sagður hafa verið einn að verki en hafi tengsl við hægrisinnuð samtök samsæriskenningasmiða og hafi tekið að hvetja til árása á þekkta einstaklinga í júní. Martin hafi einnig birt leiðbeiningar um sprengjusmíði og beðið um framlög í rafmynt sem yrðu notuð sem verðlaunafé. Vefútgáfa Spiegel segir listann telja tuttugu nöfn auk þess sem að á vefsíðu mannsins hafi mátt sjá stuðning við öfgahægri hugmyndafræði og margs konar samsæriskenningar, meðal annars tengdar kórónuveirufaraldrinum. Martin S. bíður ákæra fyrir fjármögnun hryðjuverka og hvatningu til ofbeldisverka sem ógnað gætu stöðugleika ríkisins. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum barist gegn samtökum sem kalla sig Reichsbürger, eða Ríkisborgarar, sem hafna lögmæti þýska lýðveldisins. Þau þykja nú mikil öryggisógn eftir að hafa lengi verið álitinn hópur óánægðra furðufugla sem aðhylltust samsæriskenningar af mörgu tagi. Árið 2022 voru nokkrir meðlimir hópsins handteknir, þar á meðal fyrrverandi þingmaður og nokkrir hermenn, fyrir að skipuleggja valdarán til að koma kaupsýslu- og aðalsmanninum Heinrich XIII. prins af Reuss til valda.