Konungi Asanti-þjóðarinnar afhent þjófstolin verðmæti

Yfir 130 gull- og bronsmunum hefur verið skilað til konungs Asanti-þjóðarinnar í Gana samkvæmt ákvörðun breskra og suðurafrískra einstaklinga og fyrirtækja. Þeim var stolið þaðan á seinni hluta 19. aldar og á fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Í tilkynningu frá hirð Otumfuo Osei Tutu II konungs fékk hann munina afhenta á sunnudaginn við hátíðlega athöfn í listasafni hallar sinnar í Kumasi, höfuðborg Asanti-fólksins. Breski listsagnfræðingurinn Hermione Waterfield lét 25 muni af hendi, en hún stofnaði ættbálkalistadeild uppboðshússins Christie's árið 1971. Meðal þeirra er trumba sem talið er að stolið hafi verið í umsátri breska hersins um Kumasi árið 1900. Auk þess komu 110 hlutir frá Barbier-Muller-safninu í Genf, sem svissneski listasafnarinn Josef Müller sankaði að sér snemma á 20. öld. Meðal gripanna var konunglegt skraut, trommur og gulllóð með myndskreytingum sem lýsa stjórnkerfi Asanti-þjóðarinnar, andatrú og því hlutverki sem gull gegndi í samfélagi hennar. Konungur þakkaði suðurafríska námufyrirtækinu AngloGold Ashanti sérstaklega fyrir að hafa keypt nokkra munanna á opnum markaði og fært þá Asanti-fólkinu. Fyrirtækið afhenti einnig nokkra gripi í fyrra. Mjög hefur verið þrýst á að söfn og stofnanir á Vesturlöndum skili gripum sem nýlenduveldi á borð við Bretland, Frakkland, Þýskaland og Belgíu stálu í Afríku.