Frakkar hyggjast aðstoða Palestínumenn við gerð stjórnarskrár

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur boðið Mahmoud Abbas, forseta palestínsku heimastjórnarinnar, liðsinni við gerð stjórnarskrár fyrir framtíðarríki Palestínumanna. Þetta kom fram í gær á sameiginlegum blaðamannafundi þeirra meðan á heimsókn Abbas til Frakklands stóð. Macron sagði heimastjórnina og frönsk yfirvöld ætla að skipa stjórnlaganefnd til að draga upp stjórnarskrárdrögin. Henni er ætlað að bera ábyrgð á öllum lagalegum þáttum stjórnarskrárinnar. Macron sagði Frakka jafnframt ætla að leggja fram hundrað milljónir evra til mannúðaraðstoðar á Gaza. Frakkar voru meðal nokkurra vestrænna ríkja sem formlega viðurkenndu Palestínuríki í september. Þær ákvarðanir má meðal annars rekja til vaxandi andúðar alþjóðasamfélagsins á stríðsrekstri Ísraela á Gaza og vonar um að tveggja ríkja lausnin geti leitt til varanlegs friðar. Ísraelsstjórn er afar andvíg stofnun palestínsks ríkis. Viðkvæmt vopnahlé hefur síðan komist á milli Hamas og Ísraels með milligöngu Bandaríkjanna, Egyptalands og Katar. Það heldur enn þrátt fyrir nokkur brot af beggja hálfu.