Forsætisráðherrann við að skólastjórnendur geti vísað ofbeldisfullum nemendum frá námi

Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur vill að grunnskólastjórum verði færðar auknar heimildir til að vísa ofbeldisfullum eldri bekkingum frá námi án aðkomu sveitastjórna. Frederiksen sagði þetta í samtali við Berlingske sem hefur undanfarið ár flett ofan af mikilli ofbeldisöldu sem gengur yfir danska grunnskóla. Berlingske segir að vísa megi nemendum úr skóla í allt að fimmtíu daga verði þeir uppvísir að glæp, beiti þeir aðra vísvitandi ofbeldi og viðvarandi áreiti eða fremji alvarleg skemmdarverk. Viðbrögð séu orðin of flókin að mati Frederiksen og réttast sé að skólastjórnendur hafi stjórn á aðstæðum sjálfir. Forsætisráðherrann sagði orðið alltof torvelt að bregðast við ef til dæmis fimmtán ára unglingur kýlir einhvern í andlitið á skólatíma. Auðvitað eigi skólastjórar að geta brugðist skjótt við og vísað viðkomandi úr skólanum, tímabundið til að byrja með, að mati Frederiksen. Þeir eigi líka að geta bannað nemandanum að snúa aftur og ráðherrann segir réttast að ekkert ofbeldi verði umborið í skólum. Þó þurfi að taka tillit til nemenda með sérþarfir eða greiningar sem geta leitt af sér mikil reiðiköst.