Ráðherra segir jafngildi orkunotkunar tvö þúsund heimila hafa sparast með orkusparandi aðgerðum í gróðurhúsum

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur ákveðið að ráðstafa aukalega 100 milljónum króna til orkusparandi aðgerða í gróðurhúsum garðyrkjubænda. Markmiðið er að bæta orkunýtni og draga úr orkunotkun með innleiðingu LED-ljósa og annars orkusparandi búnaðar. Þannig lækki rekstrarkostnaður bænda og orkuþörf alls samfélagsins. Jóhann Páll segir mat Umhverfis- og orkustofnunar vera að 8,3 gígavattstundir hafi sparast frá því í vor sem nemi árlegri raforkunotkun tvö þúsund heimila. Á vef Stjórnarráðsins segir að ákvörðun um frekari framlög hafi verið tekin vegna góðs árangurs af fyrri styrkúthlutun, sem Loftslags- og orkusjóður hefur umsjón með. Megináhersla verði lögð á að styrkja verkefni sem falli að hlutverki sjóðsins. Þeir fá forgang við úthlutun sem meðal annars skila mestum orkusparnaði á hverja krónu sem veitt er, koma með lausnir sem auka tæknivæðingu í rekstri gróðurhúsa, auka hagkvæmni í rekstri og séu fyrirmynd annarra í greininni. Sölufélag garðyrkjumanna skoraði á stjórnvöld í apríl að grípa inn í bráðavanda garðyrkjunnar vegna hækkana á raforkuverði. „Þetta er í fyrsta skipti í áratugi sem stjórnvöld ráðast í skipulegan fjárfestingarstuðning við framleiðendur garðyrkjuafurða, og styrkirnir skila sér í lækkandi orkukostnaði og aukinni framleiðni í greininni,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra.