Varað við stormi á Austfjörðum

Gul viðvörun verður í gildi á Austfjörðum í dag vegna storms á sunnanverðum fjörðunum. Þar má búast við allt að 30 metrum á sekúndu í hviðum. Öllu hægari vindur verður annars staðar á landinu. Stöku éljar verða framan af degi norðaustanlands en bjart verður víðast hvar á landinu. Veðurspáin Veðurstofunnar er svohljóðandi: Norðan þrír til tíu metrar á sekúndu og norðvestan tíu til fimmtán austast en að 23 metrum á sekúndu um tíma sunnantil á Austfjörðum. Skýjað norðan- og austantil og stöku él norðaustanlands framan af degi. Annars bjart veður. Frost allt að átta stig, kaldast inn til landsins. Hæg vestlæg átt í nótt og þykknar upp, þrír til þrettán á morgun, hvassast um landið norðvestanvert. Rigning, slydda eða snjókoma af og til, en þurrt sunnantil á landinu. Hlánar vestast og með norðurströndinni, annars vægt frost.