Pattstaða við stjórnarmyndun en milligöngumaður enn bjartsýnn

Skipuðum milligöngumanni við stjórnarmyndunarviðræður Wouter Koolmees, stjórnanda ríkisjárnbrautanna, tókst ekki að brúa það bil sem er milli leiðtoga hægriflokksins VVD og bandalags Græningja og Verkamannaflokksins. Því virðist tímabundin pattstaða komin upp varðandi stjórnarmyndun. D66, miðjuflokkur Rob Jettens, sigraði í þingkosningum fyrir hálfum mánuði en fékk þó aðeins 26 menn kjörna. Það er smæsti sigur á síðari tímum. Niðurstaðan gerir leiðina að 76 sæta meirihluta mun torsóttari en oft áður. Draumastjórn Jettens hefði þægilegan stuðning 86 þingmanna með ráðherrum úr D66, miðhægriflokknum CDA, hægriflokknum VVD auk bandalags Græningja og Verkamannaflokksins. Sá hængur er á að Dilan Yeşilgöz, leiðtogi VVD, þvertekur fyrir samstarf við bandalagið. Koolmees tókst ekki að brúa það bil. Yeşilgöz vill mynda stjórn ásamt D66, CDA og JA21 sem er lengst til hægri á pólitíska litrófinu. Þá blasir tvennur vandi við: stjórnin hefði aðeins stuðning 75 þingmanna og Jetten yrði lengst til vinstri innan ríkisstjórnar sinnar. Koolmees stakk því upp á að Jetten og Henri Bontenbal, leiðtogi CDA, byrjuðu á því að draga upp stjórnarstefnu fyrir 9. desember, áður en raunveruleg stjórnarmyndun hæfist. Það segir milligöngumaðurinn auka vonina um að leiðtogar hinna flokkanna vilji stökkva um borð, enda breiður meirihluti fyrir stjórnarsetu D66 og CDA. Koolmees kveðst ekki bjartsýnn á að stjórnarmyndun takist fyrir jól.