Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, segir að fólk sé vant árstíðabundinni sveiflu á vinnumarkaði í tengslum við flug og ferðaþjónustu. Hún segir að atvinnuleysið nú sé þó hátt miðað við venjulegt árferði. Það fólk sem venjulega hafi verið ráðið á flugvellinum og við ferðaþjónustu frá vori fram á haust hafi alla jafna gengið í önnur störf þess á milli. „Nú er það ekki raunin. Nú er fólk bara komið inn hjá Vinnumálastofnun og fær ekki störf.“ Í síðasta mánuði voru 7,1 prósent starfsfólks á Suðurnesjum atvinnulaust en 3,9 prósent á landsvísu. Vinnumálastofnun greip til aðgerða til að bregðast við miklu atvinnuleysi. Sett verður upp atvinnutorg og fólk aðstoðað við að sækja bæði um atvinnuleysistryggingar og vinnu. Guðbjörg segir færri störf í boði en áður eftir fall Play. Fleiri fyrirtæki hafi orðið gjaldþrota. Þetta gerist allt á sama tíma og hafi slæm áhrif. Guðbjörg varð formaður verkalýðsfélagsins 2019. Hún segir að þá hafi tímabundnar ráðningar ekki verið jafn áberandi og í dag. Þá hafi fólk verið fastráðið og staðið sínar vaktir allan ársins hring. „Nú erum við að sjá breytingar. Nú erum við að sjá að fyrirtæki eru að breyta fyrirkomulaginu hjá sér. Af því að flugið er mikið á morgnana og seinni partinn þá er enginn eða fáir í vinnu um miðjan dag. Við erum að sjá þetta aftur.“