Catherine De Bolle framkvæmdastjóri Europol segir alþjóðlega glæpahópa nýta tölvuleiki og samfélagsmiðla til að fá börn og ungmenni til að fremja glæpi. Glæpamenn nálgast börnin á spjallsíðum og bjóða þeim peninga fyrir að fremja skemmdarverk og jafnvel morð. Dæmi eru um að níu ára börn hafi lent í klóm þessara glæpamanna. „Við verðum vör við að glæpa- og ódæðismenn leiti leiða til að komast í tæri við ungmenni undir alls konar yfirskini. Til dæmis hafa þeir uppi á ungu fólki sem stundar ofbeldisfulla tölvuleiki og ganga út frá því að þetta unga fólk hrífist af ofbeldi. Þegar þeir ná tengslum við unglingana er þeim boðið á aðrar spjallrásir til að ræða málin nánar og fá þá þannig til liðs við sig,“ segir Catherine. Fréttastofa hefur áður greint frá ofbeldishópnum 764 sem þvingaði íslenska unglingsstúlku til sjálfskaða í beinu netstreymi. Tótla I. Sæmundsdóttir framkvæmdastjóri Barnaheilla sagði í samtali við fréttastofu í síðasta mánuði að þetta sé ekki einsdæmi og að foreldrar þurfi að vera meðvitaðir um þessa ógn. Catherine tók þátt í pallborðsumræðum um öryggis- og varnarmál í gær ásamt Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra og Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra. Sigríður sagði af sér embætti ríkislögreglustjóra á sunnudag og var þátttakan í pallborðsumræðunum í gær eitt af síðustu verkum hennar í embætti. Grímur Hergeirsson lögreglustjóri á Suðurlandi tekur tímabundið við embætti ríkislögreglustjóra á föstudag.